23.03.1931
Neðri deild: 31. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1025 í C-deild Alþingistíðinda. (1225)

158. mál, loftskeytanotkun íslenskra veiðiskipa

Magnús Guðmundsson:

Ég þarf aðeins að svara fyrirspurn hæstv. dómsmrh. um það, hvers vegna ég hafi ekki sett reglugerð um notkun loftskeyta, meðan ég var ráðh. Þessu er ósköp auðsvara, því að reglugerðin var til og er til enn, enda hafa verið lesnar upp greinar úr henni undir umr. Það þarf ekki nema gefa landssímastjóra fyrirskipun um, hvaða ráðstafanir hann eigi að gera um loftskeytaviðskipti togara, því að næg heimild til þessa er í lögum.

Út af því, sem hæstv. ráðh. sagði, að ég hefði viðurkennt þennan „gífurlega ránskap“ eins og hann komst að orði, þá er það að vísu rétt, að ég hefi viðurkennt, að landhelgisbrot ættu sér stað, en ég hefi aldrei viðurkennt, að misnotkun loftskeyta væri þar um að kenna. Ég skora á hæstv. ráðh. að tilfæra eitt einasta dæmi, þar sem þótt hafi sérstaklega grunsamlegt, að um misnotkun loftskeyta væri að ræða, og þar sem það að lokinni rannsókn hafi sannazt, að svo væri. Ef hæstv. ráðh. getur þetta ekki, þá verð ég að álíta, að allt tal hans um þessa hluti séu ýkjur og ekki annað en ýkjur. En ef hann getur tilfært eitt einasta dæmi, sem hann sennilega getur ekki, þá ákæri ég hann fyrir það að hafa ekki notað heimildina í reglugerð frá 1918 og í lögum frá 1917.