25.03.1931
Neðri deild: 33. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1032 í C-deild Alþingistíðinda. (1238)

173. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Magnús Guðmundsson:

Það var sagt í fyrra, þegar til umr. var frv. um þennan nýja banka, að ekki mundi líða á löngu, þangað til þyrfti að endurskoða þá lög gjöf, jafneinkennileg og hún var. Það ætlar nú að koma á daginn, að fyrsta tækifæri er notað til þess að fá þessu breytt. Og það undrar mig í rauninni alls ekki, eins og allt þetta mál var í pottinn búið, þótt það sé ekki á enda kljáð. Það er nógu gaman að sjá, að þeir menn, sem hömuðust mest á móti því í fyrra, að tekin væri ábyrgð á sparisjóðsfé Íslandsbanka, skuli, eða a. m. k. einn þeirra, flytja frv. um það nú. Reyndar hefir hans aðstaða til bankans breytzt, þar sem hann er orðinn útibússtjóri, en skoðun hans hefir líka breytzt, og það að marki.

Ég ætla, að það hafi verið á þinginu 1928, fyrsta þinginu, er núverandi meiri hluti hafði hér völd, að samþ. var að taka ábyrgð á öllum fjárreiðum Landsbankans, og þar með auðvitað sparisjóðsfé hans. Það var þá strax bent á, að afleiðingin af þessu mundi verða sú, að sparisjóðsfé mundi sogast meira og meira til Landsbankans og þá drepa hinn bankann og kannske sparisjóðina í landinu líka. Þetta þótti þá hin mesta fjarstæða. En reynslan hefir orðið sú, að við það, að sparifé landsmanna sogaðist til Landsbankans, komst hinn bankinn í þrot, og það varð ekki útgjaldalaust fyrir ríkissjóð, því að samkv. lögunum, sem sett voru í fyrra, og sem varð að setja vegna viðskipta þjóðarinnar, hvíla nú á ríkissjóði vaxta- og afborganabyrðar, sem svara til 4½ millj. kr., og það eru engin líkindi til þess, eins og hæstv. fjmrh. tók fram í sinni fjármálaræðu, að bankinn geti borgað neitt af þessu í fyrirsjáanlegri framtíð. Sama kom fram hjá hv. 1. flm. Hann sagði, að ef bankinn fengi ekki þessi fríðindi, væri óvíst. hvort hann gæti starfað óhindrað áfram.

Þetta hefir hún þá kostað, þessi tilgangslausa og óþarfa ábyrgð á Landsbankanum.

Það er öllum vitanlegt, að á bak við þessa ábyrgð fyrir Landsbankann, lá óbeinlínis viljinn til þess að koma Íslandsbanka á kné, löngunin til að lama hann svo, að hann gæti ekki borið sitt barr. En óforsjálnin og athugaleysið í þeim efnum kemur nú niður á ríkissjóði með þessum þungu vaxta- og afborganaskilyrðum, sem ég nefndi. Og það er ekki víst, að þar með sé búið. Nú er hér farið fram á, að ekki sé einungis lagt fram þetta fé. heldur verði líka tekin ábyrgið á sparisjóðsfé Útvegsbankans. Ég verð fyrir mitt leyti að segja, að úr því að búið er að taka ábyrgð á sparifé Landsbankans, er mér ljóst, að ekki er um neitt annað að gera, ef á annað borð á að hjálpa Útvegsbankanum til að fá sparisjóðsfé, en ganga í ábyrgð fyrir því. En ég er þá hræddur um, að þurfi að taka ábyrgð á öllum fjárreiðum bankans, til þess að hann geti haldið áfram. Og hvenær sem bankinn kemst í þrot, verður þingið neytt til, eftir að það er búið að leggja honum 4½ millj. kr. hlutafé og taka ábyrgð á sparisjósfé hans, að taka ábyrgið á honum öllum. Þá er svo komið, að ríkið ber ábyrgð á allri bankastarfsemi í þessu landi.

Því var haldið fram hér í þinginu í fyrra, að Landsbankinn hefði ekki getað stutt Íslandsbanka. Ég man ekki nákvæmlega, hve mikið Íslandsbanki skuldaði Landsbankanum í fyrra um þetta leyti, en það mun hafa verið náhægt 4 millj. kr. En ef litið er á reikninga Útvegsbankans nú, sést, að þessi upphæð hefir tvöfaldazt. Hvaðan hefir nú Landsbankanum komið þetta fé nú, sem hann gat ómögulega hjálpað um í fyrra? Það er örðugt að sjá. En hitt er víst, að ef Landsbankinn hefði veitt þennan stuðning strax í fyrra, hefði verið hægt að komast hjá 4½ millj. kr. ríkislántöku til Útvegsbankans. Það var sú dæmalausa skammsýni, sem stj. og þingmeirihluti sýndu í fyrra í bankamálinu, sem hefir orðið okkur svona dýr, og vitum við þó minnst enn, hvað það háttalag kann að kosta okkur. Það hefir sýnt sig, að bankastarfsemi hér er áhættusöm, eins og sá atvinnuvegur er, sem mest þarf stuðnings bankans við, og því getur enginn sagt um, hvað það getur komið til með að kosta, að ríkið taki algerða ábyrgð á Útvegsbankanum.

Ég man, að það þótti goðgá í fyrra, er ég og hv. 2. þm. G. K. fluttum till. um, að ríkið tæki að sér ábyrgð á sparisjóðsfé Íslandsbanka. Man ég, að hv. þm. Ísaf. lét ekki sitt eftir liggja að mæla á móti þeirri till. En nú á þessu þingi flytur þessi sami hv. þm. frv. um ábyrgð á sparisjóðsfénu. Þessi afstöðumunur er að vísu skiljanlegur, þegar þess er gætt, að hv. þm. er orðinn bankastjóri við útibú þessa banka. Hann sér auðvitað, að engin von er, að banki hans fái sparifé til ávöxtunar án ríkisábyrgðar, þegar tveir aðrir bankar, Landsbankinn og Búnaðarbankinn, hafa fulla ríkisábyrgð á sínu sparisjóðsfé. Þetta leiðir auðvitað af því óheillaspori, sem stigið var, þegar ríkisábyrgð var tekin á sparisjóðs fé manna í Landsbankanum í því skyni að troða skóinn niður af Íslandsbanka, eins og líka tókst. Og hætt er við, að afleiðingarnar verði víðtækari eftir samþykkt þessa frv. Hvað er líklegra en að þeir menn, sem eiga innstæður í sparisjóðum úti um landið, kjósi heldur að eiga þær í bönkum, þar sem ríkisábyrgð er á fénu, og tæmi sparisjóðina. Nú mundi þykja skarð fyrir skildi, ef sparisjóðirnir hyrfu úr sögunni, og eina úrræðið yrði því að taka fulla ábyrgð á öllu innstæðufé í þeim líka.

Að því er snertir annað aðalatriði frv., inndrátt seðla, skal ég vera fáorður. Ég vil aðeins benda a, að fram komu upplýsingar um það af hálfu bankastjórnar Íslandsbanka í fyrra, að hefði bankinn ekki þurft að draga inn eina millj. kr. af seðlum árið áður, hefði hann ekki þurft að loka. Hv. þm. Dal. upplýsti, að ríkisstjórnin hefði látið þau boð berast til bankastjórnarinnar, að hún skyldi ekki búast við neinum fresti á innlausnarskyldunni. Þetta, ásamt fleiru, sýnir hug stj. til bankans. Stj. ætlaði sér að daufheyrast með öllu við því að reisa bankann við, unz hún heyrði braka í ráðherrastólunum undir sér, en þá kom björgunin svo seint, að hún kostaði 4½ millj. Væri óskandi, að þar með væri séð fyrir endann á útlátum ríkissjóðs í sambandi við þetta, en ástæða er til að óttast, að svo sé ekki.