25.03.1931
Neðri deild: 33. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1035 í C-deild Alþingistíðinda. (1239)

173. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Gunnar Sigurðsson [óyfirl]:

Eins og Alþt. síðan í fyrra bera með sér, hélt ég því jafnan fram, að töp Íslandsbanka mundu reynast meiri en þá var gert ráð fyrir, enda er nú að koma á daginn, að menn hafa verið fullbjartsýnir um það efni í fyrra. En það breytti ekki þeirri afstöðu minni, að sjálfsagt væri að hlaupa undir bagga með bankanum, og jafnmikla ástæðu tel ég til, að svo verði gert nú.

Ég hefi jafnan verið þeirrar skoðunar, að misráðið hafi verið að taka ríkisábyrgð á sparisjóðsfé Landsbankans, en úr því að svo var gert, tel ég alveg sjálfsagt að taka einnig ábyrgð á innstæðum í Útvegsbankanum, ef ekki er meiningin að reka hann sem hreint útibú frá Landsbankanum, eins og helzt virðist horfur á nú; þar sem ríkið er stærsti hluthafinn í Útvegsbankanum, hlyti það undir öllum kringumstæðum að hlaupa undir bagga, ef á bjátaði, svo að áhætta ríkissjóðs eykst ekki svo mjög við þetta ákvæði í frv. Það gleður mig, að allir flokkar virðast vera nokkurn veginn sammála um þetta atriði.

Að því er inndrátt seðla snertir, er ég sannfærður um, að þingið hefir verið of kröfufrekt og skilningslaust í því efni. Ég lenti í deilu við hv. núv. 1. landsk. (JÞ) á þinginu 1921 út af þessu og benti á, að hér vantaði veltufé í samanburði við viðskiptaveltuna. Þá var samþykkt að draga inn eina millj. kr. í seðlum á ári. En reynslan hefir sýnt, að þetta var of mikið, og hefir þetta ásamt öðru átt sinn þátt í að sigla Íslandsbanka í strand.

Aðalkost þessa frv. tel ég vera þann, að það ætti að geta skapað bankanum þá aðstöðu, að hann nyti betra trausts erlendis eftir en áður. Ég er þess fullviss, að aldrei verður gott lag á bankanum, fyrr en hann hefir aflað sér góðra sambanda erlendis. Þá fyrst yrði bankinn sjálfstæð stofnun, en ekki hálfgildings útibú frá Landsbankanum eins og nú er.