25.03.1931
Neðri deild: 33. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1038 í C-deild Alþingistíðinda. (1242)

173. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Magnús Guðmundsson:

Það skal ekki verða langt mál hjá mér. Ég hélt því ekki fram, að sparisjóðirnir hlytu að tæmast í bankann, heldur að það gæti komið fyrir. Og ég er mjög hræddur um, að það verði ómögulegt fyrir bankann að fá verulegt fé í sparisjóð sinn, nema hann fái þessa ábyrgð.

Hv. flm. minntist á skuld Útvegsbankans við Landsbankann. Ég sagði, að við hefðum fengið þau skilaboð í fyrra, að Landsbankinn gæti ekki hlaupið undir bagga með Íslandsbanka, þó að skuldin væri þá ekki nema 4 milljónir. En nú er hún yfir 8 milljónir. Það kemur ekki málinu við, þó að mikill fiskur sé óseldur. Áður var skuldin aldrei eins há og hún hefir verið nú á tímabili.

Ég vildi spyrja hæstv. stjórn, hvort ríkissjóður sé í nokkurri hættu vegna þeirrar ábyrgðar, sem hann varð að ganga í í fyrra fyrir útgerðarlánum, meðan stoð á Íslandsbankamálinu. Mig minnir, að það væri um eina millj. kr. að ræða. Ég vildi vita, hvort svör um þetta væru fyrir hendi, og hvort ríkissjóður hefði orðið fyrir halla af þessu eða ekki.