25.03.1931
Neðri deild: 33. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1038 í C-deild Alþingistíðinda. (1244)

173. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Haraldur Guðmundsson:

Út af orðum hv. 1. þm. Skagf. þarf ég að segja ofurlítið. Hann kvað afstöðu mína hafa breytzt síðan í fyrra; þá hefði ég verið móti allri ábyrgð fyrir Íslandsbanka, en nú væri ég flm. að frv., sem gerði ráð fyrir ábyrgð á sparifé hjá Útvegsbankanum. Hv. þm. sér skakkt, ef honum sýnist vera orðin breyting á mér. En það hefir orðið breyting á öðru, breyting á stjórn og eignarumráðum bankans. Hv. þm. og flokkur hans og mikill hluti Framsóknarflokksins fengu því til vegar komið, að öllum skuldum Íslandsbanka var dembt á Útvegsbankann. Þetta var afar misráðið, — hreinasta glapræði. En nú er svo komið, að fullir 3/5 hlutar bankans eru eign ríkissjóðs, í stað þess að ríkið átti ekkert í Íslandsbanka í fyrra og hafði engar skyldur við hann. Nú er svo ástatt, að hér eru tveir bankar, sem eru reknir algerlega fyrir ríkisfé, og hinn þriðji, Útvegsbankinn, að meiri hluta fyrir ríkisfé. Ég sé ekki ástæðu til að gera neinn mun á þessum þremur bönkum, þó að ríkissjóður sé ekki eigandi nema að 66% af hlutafé Útvegsbankans.

Um þá fullyrðingu hv. 1. þm. Skagf. og hv. þm. Dal, að hægt hefði verið að bjarga Íslandsbanka með því að veita honum frest á seðlainndrætti um eitt ár, þarf ég ekki að tala, hún er barnalegri en svo, að orðum sé að henni eyðandi.