25.03.1931
Neðri deild: 33. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1044 í C-deild Alþingistíðinda. (1255)

173. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Sigurður Eggerz:

Það er dálítið annað hljóð í strokknum núna en þegar töpin urðu á Landsbankanum, þegar matið, sem framkvæmt var á honum, sýndi 6 millj. halla. Þá var ekki verið að deila á bankastjórnina. Þá var ekki verið að tala um fjármálaafglöp hjá bankastjórunum. Nei, þá voru eðlilegar ástæður til tapanna. En nú, þegar um Íslandsbanka er að ræða, þá vantar ekki áfellisdómana. Fremstur í flokki þar gengur sjálfur forsætisráðherrann, formaður bankaráðsins. Stöðvun Íslandsbanka í fyrra var notuð sem pólitískt árásarefni, það átti að drepa hann, til þess að fella vissa stjórnmálamenn. Það var talað um að með honum skyldi sterkasta íhaldsvígið falla. (Forsrh.: Heldur hv. þm. Dal., að stjórnin hafi verið hrædd við hann?). Já, ég er ekki í neinum vafa um það, að stj. ætlaði að nota þetta sem vopn á mig, og sýnir hún það bezt með því, að nú hefir hún sent mann heim í mitt kjördæmi, til þess að vinna á móti mér, og notar hann einmitt afdrif Íslandsbanka sem árásarefni á mig. Að stj. hefir verið hrædd við mig, sést bezt á því, hve mikla áherzlu hún leggur á að vinna á móti mér með sínum „agitatortum“ og smölum. Annars ætti stj. ekki að minnast á þetta mál án þess að roðna. (MJ: Hún gerir það). Hún ætti að finna svo til þeirrar háðungar og vansæmdar, er hún hefir til unnið í þessu máli, að hún ætti ekki að reyna að líta upp á nokkurn mann fyrir þau óverjandi afglöp, er hún gerði sig seka í með árásinni á lánstraust þjóðarinnar, gegnum afskipti sín af máli Íslandsbanka. Nei, afstaða sú, er stj. tók til Íslandsbanka á þinginu í fyrra, var sprottinn af pólitískum ástæðum, það var langþráð takmark hennar að koma þeirri stofnun fyrir kattarnef. Menn vita það, að nóttina, sem átti að drepa bankann hér á Alþingi í fyrra, lét hæstv. dómsmrh. sjá um, að Hótel Borg yrði ekki lokað, svo að hann og fylgismenn hans gætu haldið þar fagnaðarhátíð, þegar búið væri að drepa bankann. Einmitt þegar mest reið á og heiður og hagur þjóðarinnar var í veði, þá var það hæstv. forsrh., formaður bankaráðs Íslandsbanka, sem studdi að því fyrir sinn læpuskap (forseti hringir), að framin voru hin stærstu fjármálaafglöp. Ég endurtek það, sem fyrir sinn læpuskap (forseti hringir) varð orðsök í þeim mestu fjármálaafglöpum, sem framin hafa verið á Alþingi.