25.03.1931
Neðri deild: 33. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1050 í C-deild Alþingistíðinda. (1263)

173. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Flm. (Jón Ólafsson):

Ég stend aðeins upp vegna þess, að ég vil ekki, að misskilningur geti hlotizt af þessum umr. Ég held, að mönnum sé ekki fullkomlega ljóst, af hverju hinar miklu afskriftir Útvegsbankans, 10 millj kr., stafa.

Í þessari upphæð er falið allt hlutafé Íslandsbanka, 4½ millj. kr., varasjóður Íslandsbanka, 830 þús. kr., og yfirfært frá fyrra ári 400 þús. kr.

Þessar miklu afskriftir stafa af því, að á síðastl. ári hafa mörg stór fyrirtæki orðið gjaldþrota og verið gerð upp.

Það er venja í bankanum að færa aðeins sem eignir bankans það verð, sem fæst fyrir eignirnar á opinberu uppboði. Getur því vel verið, að bankinn eigi eftir að fá nokkuð mikið upp í það, sem afskrifað hefir verið á þennan hátt, vegna þess að þessi sjálfsagða regla er notuð.

Nú sem stendur er enginn sjáanleg ástæða til þess að telja það hlutafé tapað, sem lagt hefir verið fram bankanum til stuðnings, og fullkominn óþarfi er að tala um nú á þessu stigi, að ríkið þurfi að hlaupa undir bagga með bankanum. Því vona má það, að ef eigi dregst lengi uppgerð þeirra, sem hafa verið ótryggir viðskiptamenn bankanum, þá muni bankinn komast á þann grundvöll, að eigi sé ástæða til að örvænta um gengi hans í framtíðinni.

Ég vildi aðeins taka þetta fram vegna þess, að slíkar umr. og hér hafa farið fram og hljóta að berast víðsvegar, geta komið ástæðulausum ótta og misskilningi inn hjá almenningi. Þykir mér leitt, að umr. um þetta mál skyldu berast svo út frá efninu og verða svo villandi, að erfitt mun fyrir almenning að átta sig á þeim.