25.03.1931
Neðri deild: 33. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1053 í C-deild Alþingistíðinda. (1265)

173. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Sigurður Eggerz:

Nú kom það fyrir, sem sjaldan skeður: Hæstv. fjmrh. hafði rétt að mæla. Hann sagði, að töp Íslandsbanka hefðu ekki myndazt á þeim árum, sem hæstv. forsrh. var bankaráðsformaður. En ég var einmitt bankastjóri á sama tíma, svo að ekki eru töp bankans mér að kenna. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir þessar varnir fyrir mínum málstað.

Í fyrra var tap bankans metið 3½ millj. kr., en nú telur hæstv. forsrh., að tapið sé 10 millj. kr. Hvernig hefir bankanum þá verið stjórnað, síðan ég fór frá? Það er eftir að rannsaka það.

Það er ódrengskapur af hæstv. forsrh. að segja, að ég sé fallinn maður í þessu máli. Veit ég reyndar, að hann gerir allt til þess að svívirða mig. En ég vil minna hann á það, að ég bauð honum, að ég skyldi fara strax úr bankastjórninni, ef bankinn fengi þá ríkishjálp, sem beðið var um. Ég vildi ekki vera þar til fyrirstöðu.

Ég verð að segja það, að í mínum augum er hæstv. forsrh. sjálfur fallinn maður. Það er fallinn maður, sem tekur tugi þúsunda úr ríkissjóðnum og ver þeim til að gefa út auglýsingarit fyrir eitt af kaupfélögum landsins. Ég vil minna hæstv. forsrh. á 7. boðorðið: „Þú skalt ekki stela“. Ég skora á yður, hæstv. forsrh., að læra betur boðorðin!