25.03.1931
Neðri deild: 33. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1054 í C-deild Alþingistíðinda. (1266)

173. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég vil taka undir orð þeirra hv. flm. og hæstv. fjmrh., að umr. um þetta mál hafa borizt inn á hættulegar brautir, og að það er hv. þm. Dal., sem fyrst og fremst á sök á því. Og ég vil einnig taka undir orð þeirra um það, að þó að afskriftir hafi orðið svo háar þ. á., þá er ekki þar með talað um endanleg töp bankans. Hv. þm. Dal. skal ekki fá mig til að leika sig of hart, þó hann reyni að ögra mér með öllu móti.

Hvað tali hv. þm. um 7. boðorðið viðvíkur, þá mun það koma í ljós, er ég svara fyrirspurn um útgáfukostnað hinnar vinsælu og góðu bókar, sem hv. þm. minntist á, að hv. þm. hefir hrasað ónotalega á sannleiksbrautinni, því að útgáfa þessarar þörfu bókar kostaði innan við 10 þús. kr., og hefir hv. þm. Dal. því margfaldað útgáfukostnaðinn. (ÓTh: Hvernig var þá 7. boðorðið?). Ég kann boðorðin ágætlega, en ég sé enga ástæðu til að fara að kenna hv. 2. þm. G.-K. kverið hér, þó að hann hafi áreiðanlega þörf fyrir það.

Hv. þm. Dal. hótaði mér því, að ég skyldi ekki eiga rólega daga framvegis. Þarna hefir hv. þm. komið upp um sig. Því að hver sá, sem kemur með hótanir í öðrum málum en því, sem um er að ræða, hann hefir beðið ósigur.