25.03.1931
Neðri deild: 33. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1054 í C-deild Alþingistíðinda. (1268)

173. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Gunnar Sigurðsson [óyfirl.]:

Umr. hafa nú komizt inn á aðrar brautir en æskilegt hefði verið, og skal ég ekki lengja þær mikið. Þó álít ég, að allar umr., sem snúast um efni þessa frv. séu þarflegar.

Í fyrra hafði ég ætlað mér, vegna þess. hvernig umr. snerust þá um tíma, að óska eftir bráðabirgðalöggjöf til verndar bankanum. Og ég skal taka það fram, að þó ég liti einna svartast á hag bankans í fyrra, vildi ég þó ekki, að hann væri lagður niður, eins og hv. þdm. mun kunnugt. Ég vil minnast nokkrum orðum á ræðu hv. bankastjóra, 3. þm. Reykv.

Það er rétt, að mikil þörf var á að afskrifa hjá bankanum. Hag Íslandsbanka var svo komið, að hann gat ekki skilað reikningum, nema með því að halda uppi nokkrum stórum fyrirtækjum og gera þau ekki upp. En í of hröðum uppgerðum liggur mikil hætta fyrir bankann. Verður þá oftast lítið úr eignunum, er bankinn á að taka við þeim, og getur það fellt aðrar eignir svo í verði, að bankinn bíði tjón af. Vona ég því, að bankinn geri sem minnst að því að leggja þau fyrirtæki á höggstokkinn, sem geta lifað, því að með því verður bankanum lítið úr eignum sínum.