21.02.1931
Neðri deild: 6. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í C-deild Alþingistíðinda. (1272)

1. mál, fjárlög 1932

Magnús Jónsson:

Ég vil minna á það, að í 4. gr. útvarpslaganna frá síðasta þingi eru ströng fyrirmæli um það, að „gætt verði fyllstu óhlutdrægni gagnvart öllum flokkum og stefnum í almennum málum“. — Það er augljóst, að stj. útvarpsins hefir ætlað að fylgja þessu ákvæði strangt fram, því hún hefir sent bréf til miðstjórna flokkanna, hvert eftir annað, til að brýna fyrir þeim ákvæði þessarar gr. Ég hefi hér bréf, sem sent var 12. febr., og annað, sem var sent 16. febr. Þar er sagt, að ákvæðum þessarar gr. muni verða framfylgt í strangasta lagi, en þó réttlátlega. — Ég er alveg sammála um, að þetta skuli gert. Og ég vona, að hæstv. forseti athugi þetta fyrir sitt leyti. En ég verð að segja það, að ræða hæstv. fjmrh. var engan veginn alveg hlutlaus. Sérstaklega voru það ummæli hans um blöð andstæðinganna.

Hér er um fyrirfram samda og undirbúna ræðu að ræða, sem inniheldur margar tölur. Er því erfitt að svara henni samstundis. En ég teldi fulla ástæðu til, þegar ræðan hefir verið prentuð og menn hafa fengið tíma til að átta sig á henni, að hæstv. forseti gæfi þá þeim tækifæri til að láta í ljós álit sitt, sem öðruvísi kunna að líta á þessi mál.