25.03.1931
Neðri deild: 33. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1057 í C-deild Alþingistíðinda. (1275)

173. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Ólafur Thors:

Það er svo á hæstv. forseta að heyra, að hann ætli ekki að gefa mér langan tíma til athugasemdar, og ég býst við því, að hann taki af mér orðið, ef mér endast ekki 10 mínútur, eftir annari röggsemi hæstv. forseta að dæma. (Forseti: Hv. þm. fær 5 mínútur til aths. sinnar). Ég vænti þess, að hæstv. forseti veiti mér 10 mín. sem öðrum þeim, er líkt hefir staðið á fyrir.

Umr. um þetta mál voru orðnar allheitar, þegar fundi var frestað í dag, en og geri ráð fyrir, að mesti vígamóðurinn sé nú runninn af flestum, a. m. k. er ég mildari í skapi en í dag, þegar hv. þm. Ísaf. lauk ræðu sinni með því að þjófkenna mig. Orð hans voru á þann veg, að ég hefði undir venjulegum kringumstæðum neyðst til að biðja hann að endurtaka þau utan þings, en það er hvorttveggja, að þessi hv. þm. hefir látið það í ljós í samtali við mig, að það, sem hann sagði, hefði ekki verið í alvöru meint, enda voru orð hans hugsuð í flýti og töluð í hita, og læt ég þau því falla dauð og ómerk. Að öðru leyti þarf ég ekki að víkja að ræðu hv. þm. Ísaf., því hann svaraði engu af því, sem ég stefndi að honum í minni ræðu.

Ég hefi aðallega átt deilur við hæstv. forsrh. í þessu máli. Hann segir, að hann hafi ekki snúizt í þessu máli, og leggur mikla áherzlu á. Það er eins og hæstv. ráðh. muni ekki, að fyrst var borið fram að tilhlutun stj. frv. til l. um skiptameðferð Íslandsbanka, og síðan annað frv. um endurreisn þessa sama banka. Ef þetta er ekki snúningur, veit ég ekki, hvað á að kalla því nafni. Hæstv. ráðh. reyndi að leiða rök að því, að þjóðarnauðsyn hefi legið til grundvallar fyrir þessari breyttu aðstöðu stj. í málinu. Rök hans voru þau að svo mikill munur hefði verið á frv. því, sem við hv. 1. þm. Skagf. fluttum, og þeirri endanlegu lausn, sem á málið var bundin að tilhlutun stj., að þessi munur réttlætti snúning hans í málinu. Nú veit hæstv. forsrh. vel, að við hv. 1. þm. Skagf. tókum það fram strax í upphafi, að við værum reiðubúnir til samninga um hverja þá leið til lausnar á málinu, sem forðað gæti landi og lýð frá þeirri eyðileggingu, er hlaut af því að leiða, ef Íslandsbanki væri lagður í rústir. Við vorum inni á þeirri hugsun að rétta bankann við á sama hátt og stj. að lokum tilneydd lagði til, sem sé með aðstoð erlendra banka og ríkissjóðs Dana, en eins og málið lá fyrir, þegar við bárum fram frv. okkar, var ekki hægt að fara þá leið, enda hraus okkur hugur við að þurfa að ganga þá braut. En þó að það væri sannkallað neyðarúrræði að þurfa að endurreisa Íslandsbanka fyrir danska náð, var það þó ákjósanlegra en að fyrirætlanir stj. um gjaldþrotaskipti hefðu náð fram að ganga, því af þeim hefði leitt hið mesta böl yfir þjóðina. Ef hinsvegar á að fara að deila um það, hvað vakað hefir fyrir okkur hv. 1. þm. Skagf., er að vísu erfitt að sanna það skjallega, en nægja ætti til að sanna snúning stjórnarinnar að benda á frv. það, sem hv. þm. V.-Ísf. og hv. þm. Mýr. báru fram og prentað er í A-deild Alþt. frá síðasta þingi, þskj. 200. Í því frv. er hvert það ákvæði, sem hæstv. ráðh. hefir slegið á og sagt hafa valdið snúningi sínum, en samt sem áður vildi stj. hvorki sjá það frv. né heyra, enda veit hæstv- forsrh., að hv. þm. V.-Ísf. og hv. þm. Mýr. báru sitt frv. fram vegna þess, að stj. var ófáanleg til að ganga inn á nokkra leið til viðreisnar Íslandsbanka. En þessir flokksmenn stj. vildu ekki taka á sínar herðar ábyrgðina af því að eyileggja þessa stofnun, sem sumir hafa kallað mesta gjaldþrotabúið, sem komið hafi til sögu hér á landi. Og það var ekki fyrr en þessir flokksbræður hæstv. ráðh. voru fúsir til að fórna honum fremur en þjóðinni, að hæstv. forsrh. snerist í málinu, því að hæstv. ráðh. vildi ekki fórna því fyrir þjóðina, sem hann var fús til að fórna fyrir sjálfan sig.

Ég hefi ekki tækifæri til að svara hæstv. fjmrh. á þeim fáu mínútum, sem hæstv. forseti bindur þessa aths. mína við, en ég vil hinsvegar ekki láta undir höfuð leggjast að þakka hæstv. fjmrh. fyrir það, að hann skyldi finna ástæðu til að setja ofan í við hæstv. forsrh. fyrir að vera að fleipra með það, hve töp bankans hefðu orðið mikil á síðasta ári. Nefndi hæstv. forsrh. líka svo háar tölur í þessu sambandi, að óhug setti að öllum, er á hlýddu. Hafa að vísu síðan komið fram skýringar á þeim tölum, sem hæstv. forsrh. tilnefndi, og urðu töp bankans ekki eins geigvænleg við þær og þau voru í munni hæstv. ráðh., enda er þess að vænta, að almenningur fái rétta frásögn um þetta efni. En ég vil engu að síður þakka hæstv. fjmrh. fyrir þær ávítur, sem hann veitti hæstv. forsrh. fyrir þetta fleipur sitt, og jafnframt lýsa ánægju minni yfir því, að hæstv. forsrh. hefir iðrast synda sinna og fallizt á, að ekki hafi verið rétt af sér að vera að hreyfa þessu.