21.02.1931
Neðri deild: 6. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í C-deild Alþingistíðinda. (1276)

1. mál, fjárlög 1932

Sigurður Eggerz:

Ég vil spyrja hæstv. forseta um, hvort leitað hafi verið hans samþykkis á því, að útvarpað yrði á þann hátt, sem gert hefir verið hér í dag. Ég tel sjálfsagt, að útvarpað verði frá Alþ., en þingið verður sjálft að raða fyrirkomulaginu. Ég held, að æskilegt væri, að umr. um öll stærstu málin verði útvarpað. Ef aðeins framsöguræðu er útvarpað, verður það hlutdrægt, en slíkt þarf algerlega að fyrirbyggja, að útvarpið verði notað í þarfir sérstakra flokka. Það liggur og í hlutarins eðli, að útvarpsráðið, menn úti í bæ, getur ekki tekið neinar ákvarðanir um, hverju útvarpað sé, nema samþykki Alþingis sé fengið til þess.