21.02.1931
Neðri deild: 6. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í C-deild Alþingistíðinda. (1277)

1. mál, fjárlög 1932

Magnús Jónsson:

mér þótti ákaflega leiðinlegt, hvernig hæstv. forseti Sþ. tók í þetta mal. Ég skil ekkert i, hvað hann gerir metnað forseta og þings lítinn, þegar hann segir, að við verðum að fara bónarveg að útvarpinu, til þess að fá einhverju ráðið um þetta. Mér rann dálítið í skap og greip því fram í. Því að það minnsta, sem útvarpsstjórnin gæti gert við þessa vesalings stofnun, Alþingi, væri það, að forsetar fengju að vita, hvenær ætti að útvarpa úr þinginu.

Það er satt, að fjármálaræðan var sérstaks eðlis. Hún er óheppileg til þess að vera útvarpað, hún er eina ræðan, sem ekki er aðstaða til að svara í sama skipti. Þegar málið kemur aftur fyrir, á eldhúsdag, er langur tími liðinn og fjöldamargt fleira en fjármal, sem blandast þar inn í, og þá stendur því allt öðruvísi á með útvörpun. En til þess að gæta í strangasta lagi hlutleysis, ætti að gefa andstæðingum stj. tækifæri til að svara strax eftir að þeir hafa kynnt sér ræðu fjmrh.

Hitt er alveg ófært og óverjandi, að hafa mann í blaðamannaherberginu, sem kippir í og úr sambandi, eftir því hvort heppilegra er fyrir stj.

Svona fór við þingsetningu, þegar jafnaðarmenn hófu húrrahróp fyrir Ísl. þjóðinni. Þá er mér sagt, að þeir, sem í útvarpið hlustuðu, hafi heyrt, að kallað var: Ísl. þjóðin lengi lifi, og svo bara eitt „hú–“ — þá var þessum sama tappa kippt úr til þess að ekkert heyrðist. Þetta er gersamlega óþolandi. Ég held næstum, að ég geri bandalag við þá, sem vilja beita handaflinu, til þess að varna því, að svona sé útvarpað. Þetta er sú óhæfa, að það væri fullkomið réttlæti að grípa til óvenjulegra ráðstafana.

Ég er sammála hæstv. forseta Sþ. um það, að við getum rætt það hitalaust, hverju skuli útvarpað. Og þrátt fyrir þessa leiðinlegu reynslu, mun ég ekki búast við, að stj. ætli sér að nota þetta nýja menningartæki í sína þjónustu.