25.03.1931
Neðri deild: 33. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1059 í C-deild Alþingistíðinda. (1278)

173. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Héðinn Valdimarsson:

Þessar umr. hafa aðallega snúizt um Íslandsbankamálið svonefnda. Vil ég ekki víkja að þeim deilum, en í sambandi við það, að deilt hefir verið um, hverjir væru sök í, að svo fór fyrir Íslandsbanka, sem kunnugt er, vil ég leyfa mér að beina einni fyrirspurn til hæstv. stj., og þó einkum hæstv. dómsmrh.

Samkvæmt íslenzkum lögum á að fara fram rannsókn á þeim fyrirtækjum, sem gjaldþrota verða. Nú er það vitanlegt, að Íslandsbanki var eitthvert mesta gjaldþrotabúið, sem verið hefir hér á landi til þessa, enda þótt bankinn gæfi sig aldrei upp lögum samkvæmt. Engu að síður var ekki hin minnsta tilraun til þess gerð að rannsaka það, hverjir áttu sökina á því, að bankinn fór á höfuðið. Komu þó í ljós við gjaldþrot bankans ýmsir þeir hlutir, sem ekki hefðu verið látnir liggja í þagnargildi í þeim löndum, þar sem hægt er að tala um réttarfar. Reikningar bankans hafa verið falsaðir ár eftir ár, og þing og stj. þannig dulin hins sanna um hag bankans. Ríkið veitti bankanum á sínum tíma seðlaútgáfurétt og hefir velt yfir í hann hverri millj. á fætur annari, og þegar svo bankinn verður gjaldþrota. sýna reikningar hans, að hann eigi miklar eignir umfram skuldir sínar! Þetta þarf að rannsaka. Er vitanlegt, að lánveitingar bankans ýmsar eru óverjandi, og hefir hann til dæmis lánað svo skiptir tugum og hundruðum þúsunda mönnum, sem þegar voru gjaldþrota, þegar þeim voru veitt þessi lán. Mundi ekki tekið með silkihönzkum í nágrannalöndum okkar á mönnum, sem stjórna fyrirtækjum á þennan hátt, en hér hefir engin rannsókn verið látin fram fara, og hafa þó borizt margar áskoranir í þá átt, t. d. frá verkamannafélögum víðsvegar um landið. Er og enginn vafi á því, að almenningur vill láta rannsaka, hverjir eiga sök á óförum Íslandsbanka og að þeim sé refsað, svo sem lög standa til. Mér er ekki heldur ljóst, hvað því hefir valdið, að rannsókn þessi hefir ekki verið látin fara fram. Hverju á að leyna almenning í þessu máli? Hvað er það, sem ekki má komast upp? Ég vil skora á hæstv. stj. að draga það ekki lengur að rannsaka, hverjir það eru, sem hér eiga sök að máli, hvort það eru bankastjórarnir, og jafnvel að einhverju leyti bankaráðið líka og endurskoðendur bankans.