25.03.1931
Neðri deild: 33. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1060 í C-deild Alþingistíðinda. (1280)

173. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það voru orð og að sönnu hjá hv. 2. þm. G.-K., að hann var blíðari í skapi nú en við fyrra hluta þessarar umr. Sannast hér hið fornkveðna, að blóðnætur eru hverjum bráðastar, og rennur af mönnum mesti vígamóðurinn, þegar fjær dregur.

Af því að hv. þm. G.-K. var í stilltara lagi í þessari síðustu ræðu sinni, og hann auk þess hefir talað sig dauðan, skal ég vera mjúkhentur á honum að þessu sinni. Vil ég þá fyrst minna á það, að í þessu máli hafa þeir tekið höndum saman um árásir á stj., jafnaðarmenn og hinir íhaldssamari þingmenn, sem nú kalla sig sjálfstæðismenn. Megum við framsóknarmenn því vel una, þegar spjótin standa á okkur úr þessum tveim áttum, því að þá getum við gengið þess vissir, að við erum á réttri leið.

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um hina breyttu afstöðu stj. í Íslandsbankamálinu á þinginu í fyrra. Það liggur í augum uppi, að stj. hafði fyllstu ástæðu til að breyta afstöðu sinni, þegar ný atriði komu fram í málinu, eins og þau, að auk ríkisins legðu aðrir aðiljar fram 6 milli. kr., til þess að standa undir hinum ógurlegu töpum þessarar stofnunar. (ÓTh: En frv.?). Frv., sem hv. 2. þm. G.-K. nefndi, gerði mikið gagn. Framlögin, sem bárust á móti, sex milljónirnar, voru bein afleiðing þessa frv.

Þessi nýja aðstaða í málinu, sem ég nefndi, olli því, að stj. tók sína endanlegu ákvörðun, og niðurstaðan er sú, að 6 millj. kr. annarsstaðar að en frá ríkinu standa nú undir töpum bankans.

Öðrum atriðum í ræðu hv. 2. þm. G.-K. sé ég ekki ástæðu til að svara. Aðeins skal ég drepa á það, að hann sagði, að það hefði verið neyðarúrræði, að menn af öðrum þjóðum hefðu tekið á sig hluta af töpum Íslandsbanka. Þetta er svo fjarri því að vera nokkurt neyðarúrræði, að það þvert á móti var sjálfsagt. Hver var það, sem olli mestum töpum Íslandsbanka? Það var einn af bankastjórum bankans, danskur maður, sem hluthafar bankans í Danmörku sendu hingað til að standa fyrir þessum málum. Það var því fullkomlega réttmætt, að þeir bæru sinn hluta af skakkaföllum bankans.