25.03.1931
Neðri deild: 33. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1061 í C-deild Alþingistíðinda. (1282)

173. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Hv. 2. þm. Reykv. beindi þeirri fyrirspurn til mín, af hverju ekki hefði farið fram rannsókn út af hinu alræmda Íslandsbankamáli, og vék að því í því sambandi, að eins og í öðrum löndum hefði verið gert, hefði átt að rannsaka þetta sem hvert annað gjaldþrot. Ég get ekki neitað því, að það hefði átt við að fylgja þessu máli af meiri hörku en gert var, en eins og greinilega hefir komið fram í umr. um þetta mál í dag, eiga þeir, sem stóðu að Íslandsbanka, um nógu sárt að binda, þó að ekki sé verið að auka á raunir þeirra,

Á hinn bóginn var þetta gjaldþrot svo stórkostlegt, eins og betur og betur er að koma í ljós, að hugsanlegt er, að atvikin hagi því svo, að ekki verði komizt hjá því að láta athuga, hvernig stj. bankans hefir farið úr hendi þeim mönnum, sem með hana fóru. Í Ed. er nú komin fram þáltill. um að skora á stj. að leggja fyrir þingið helztu skjöl þau og skilríki, sem sýna tildrögin að lokun bankans, og gæti það leitt til þess, að þingið krefjist rannsóknar á málinu. Þó að ég játi, að stj. hafi ekki gengið nógu langt í þessu máli, er á hitt að líta, að málið skýrist alltaf meira og meira, og þó að þetta sé fyrsta bankahrunið, sem orðið hefir hér á landi, er það ekkert skaðræði, þó að í ljós komi, hverjar meinsemdir bankans voru, áður en farið er að tala um sakir einstakra manna.