21.02.1931
Neðri deild: 6. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í C-deild Alþingistíðinda. (1283)

1. mál, fjárlög 1932

Forseti (JörB):

Hv. þm. Dal. beindi til mín þeirri fyrirspurn, hvort forsetar hefðu tekið ákvarðanir um, hvernig bæri að haga því, sem útvarpað yrði frá Alþingi. ég hefi áður út af fyrirspurn hv. 1. þm. Reykv. sagt, að forsetar hafa ekki enn sem komið er tekið neinar slíkar ákvarðanir.

Hinsvegar get ég út af ummælum, sem hafa fallið í þessari hv. d., lýst því yfir, að ég álít, að taka beri hið fyllsta tillit til óska hv. þm. um þetta efni við framhald umr. Og siðar meir verða þingflokkarnir að koma sér saman um, hverju skuli útvarpað og hvernig því skuli háttað.

Ég hygg, að enginn skaði sé skeður, þótt ekki sé útvarpað meira að þessu sinni, ef hv. þm. fá tækifæri seinna til þess að gera þær aths., sem þeir vilja gera um þetta mal, og ég mun fyrir mitt leyti stuðla að því.

Ég vil geta þess, að áður hefir verið útvarpað ræðu fjmrh. Hér í þinginu og engu öðru, og ekki vakti það neinar deilur.

Ég vænti þess, að hv. þm. geti látið sér þetta lynda og lengi ekki umr. úr hófi fram um þetta atriði.