21.02.1931
Neðri deild: 6. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í C-deild Alþingistíðinda. (1287)

1. mál, fjárlög 1932

Ásgeir Ásgeirsson:

Af því að þeirri fyrirspurn var beint til mín frá hv. 1. þm. Reykv., hvort ég vildi heldur hlutdrægt útvarp eða óhlutdrægt, þá skal ég svara því, sem hann reyndar veit, að ég vil heldur óhlutdrægt útvarp. En ég vil benda hv. þm. á það, að þegar gerðar voru ráðstafanir til þess að útvarpa ræðu Jóns Þorlákssonar, þegar hann var fjmrh., var ekkert talað um það áður. Það eru því til fordæmi fyrir þessu. Og þeim, sem þá voru við stjórn og fengu ráðið þessu, ferst ekki að finna að því, að þegar annar þingflokkur situr að völdum, skuli nákvæmlega það sama koma fyrir. (MG: Þá urðu engar umr., og þá var útvarpið einkafélag). Það er alveg sama, hvort um einkafélag er að ræða eða ekki.

Að öðru leyti vil ég benda á það, að hinu háa Alþingi hefir láðst í löggjöf sinni að askilja sér einu ótvíræðan rétt um útvörpun, en samkv. lögum hefir útvarpsráðið rétt til að ráða útvörpun, þótt því hafi ekki verið beitt.

Ég vil vona, að þessar umr. hafi ekki gefið neitt tilefni til þess að óttast hlutdrægni í þessu efni í framtíðinni. Það er óþarfi að bera kvíðboga fyrir því, sem á næstunni verður borið undir þingið.