25.03.1931
Neðri deild: 33. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1064 í C-deild Alþingistíðinda. (1288)

173. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Haraldur Guðmundsson:

Gamalt máltæki segir, að hverjum þyki sinn fugl fagur, og sannast það á hv. þm. V.-Ísf. Hann rómaði mjög þau endalok, sem Íslandsbankamálið fékk hér í fyrra, en kom ekkert inn á það, sem er höfuðákvæði frv., sem hér er til umr.

Ég benti á það í fyrri ræðu minni, hvernig það, að demba þrotabúi Íslandsbanka óuppgerðu á Útvegsbankann, hefir gleypt 4,5 millj. af hlutafé hans og stórspillt trausti hans og áliti erlendis. Og ég sýndi fram á, að þessi úrlausn var samkomulagsverk Íhalds og Framsóknar og gerð gegn atkvæðum okkar jafnaðarmanna. Nú vill hv. þm. halda því fram, að við Alþýðuflokksmenn höfum unað vel við þessa úrlausn málsins og að form. Alþýðuflokksins hafi sagt, að þetta væri næstbezta úrlausn málsins. Ég veit ekki, hvort hv. þm. er svona gleyminn, eða hann segir viljandi ósatt um þetta. Hann veit vel, að það var gerð stórkostleg breyt. á frv., frá því það kom fram í Ed. og þangað til það varð að lögum, sem sé sú, að ekki skyldi halda búi Íslandsbanka aðskildu frá fé Útvegsbankans, og hlutafé beggja bankanna var að lokum gert jafnrétthátt, í stað þess að láta forgangshluti Íslandsbanka mæta töpum hans. Um þetta urðu snarpar umr. í báðum deildum.

Hv. þm. sagði ennfremur, til sönnunar því, að við höfum sætt okkur vel við þessi málalok, að hv. 2. landsk. hefði tekið við bankastjórastöðu við Útvegsbankann, og ég líka. Hv. þm. gerir sig sekan í samskonar villu þarna og ýmsir aðrir honum andlega skyldir menn, þótt kallaðir séu í öðrum flokkum. Ég vænti þó, að hv. þm. skilji, að breytingarnar eru miklar á orðnar, þar sem lánaðist að koma þrotabúi Íslandsbanka upp á þjóðina, en deilan var aðallega um það, hvort þetta skyldi gert eða ekki. Nú er svo komið, að ríkið á 3/5, hluta bankans, og tjáir eigi að loka augunum fyrir þeirri staðreynd.

En hv. þm. má ekki láta sér detta í hug, að með því að gerast starfsmaður hjá Útvegsbankanum hafi ég lokað svo munninum á mér, að ég segi ekki það, sem ég tel rétt, bæði um það, sem nú er að gerast, og það, sem gerðist á síðasta þingi.

Mér er sagt, að hv. 2. þm. G.-K. hafi vikið að mér örfáum orðum. Ég hefi tvo sögumenn að því, hvað hann sagði, en þeim ber ekki saman, og er þó annar þeirra hv. þm. sjálfur. Mér er sagt, að hann hafi sagt hér í hv. deild, að ég hafi einslega beðið hann afsökunar á fyrri ummælum mínum, og því vildi hann ekki taka í lurginn á mér, eins og ég ætti skilið. Þetta hefi ég frá trúverðugasta manni og segi það því hér. En tildrög fyrri ummæla minna voru þau, að hv. þm. greip fram í ræðu mína með þessum orðum: „Þjófurinn þrífst, en þjófsnauturinn ekki“. Ég svaraði eins og vera bar í sama tón. Ég svara nær altaf í sama tón og á mig er yrt. Hafi þm. sviðið undan orðum mínum, má hann sjálfum sér um kenna. Ef hv. þm. vill, skal ég gjarnan gera grein fyrir því, hvað lá að baki þessum ummælum.