21.02.1931
Neðri deild: 6. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í C-deild Alþingistíðinda. (1289)

1. mál, fjárlög 1932

Sigurður Eggerz:

Ég skildi svar hæstv. forseta þannig, að forsetar hefðu ekki tekið neina ákvörðun um þetta, né hafi þar nokkuð um að segja. En það eru þeir og engir aðrir, sem eiga að ráða þessu. Hæstv. forseti bjóst við, að menn yndu við þessi málalok í þetta skipti. Ég tel gott engu að síður, að þessar umr. hafa orðið, svo að hinum ráðandi mönnum sé það ljóst, að því verður kröftuglega mótmælt, ef á að fara að misbeita útvarpinu á þennan hátt. Í útvarpinu hafa komið ýmsar fréttir, sem bera á sér blæ ákveðins stjórnmálaflokks. En ég vil taka það fram aftur, að meðal þjóðarinnar er lögð áherzla á, að hlutleysis sé gætt. Og sú eðlilegasta krafa, sem kjósendur landsins geta gert, er, að þeim gefist sem oftast tækifæri til að heyra, hvað þeirra fulltrúar segja í þinginu. Þær skýrslur, sem blöðin birta af ræðum manna, eru afarófullkomnar, og stundum svo, að menn roðna við að sjá þær. Þess vegna ættu þingmenn að vera því fylgjandi, að öllum ræðum væri útvarpað. Þá væru rangfærslur blaðanna kveðnar niður og skapaðar meiri líkur til þess, að kjósendur landsins geti myndað sér réttar skoðanir á þjóðmálunum og hætt að taka eftir því, sem hinir og þessir snatar, sem sendir eru út um landið með róg til kjósendanna, bera um það, sem hvorki er rétt né satt.