25.03.1931
Neðri deild: 33. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1065 í C-deild Alþingistíðinda. (1290)

173. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Ásgeir Ásgeirsson:

Hv. þm. Ísaf. sagði, að hverjum þætti sinn fugl fagur, og heimfærði það upp á mig. Nú þegar þessi hv. þm. er orðinn starfsmaður bankans, vænti ég þess, að honum komi einnig til að þykja hann fagur.

Það er ekki rétt, að það hafi orðið stórkostleg breyting á frv. um Útvegsbankann á síðasta þingi, frá því það kom fram og þangað til það varð að lögum. Því var ekki breytt í neinum verulegum atriðum.

Hv. þm. skal ekki halda, að ég sjái eftir þeim „bita“, sem hann hefir fengið. Þvert á móti hygg ég hv. þm. líklegan til þess að verða stofnuninni til gagns, en honum getur ekki verið alvara með þeirri ádeilu, sem hann flutti hér á afgreiðslu málsins í fyrra.