25.03.1931
Neðri deild: 33. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1068 í C-deild Alþingistíðinda. (1297)

173. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Pétur Ottesen:

Í umr. í dag og eins nú hefir því verið haldið fram bæði í sambandi við þetta frv. og eins í sambandi við hið svokallaða Íslandsbankamál, bæði af hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh., að bankaráð eða fulltrúaráð Íslandsbanka hafi með lögum haft þá aðstöðu, að ekki væri hægt að krefja þá menn, sem þá nefnd eða ráð skipa, til skuldar út af þeim óförum, sem Íslandsbanki varð fyrir. Þessu hefir verið haldið fram hér í dag, og þar á meðal af hæstv. fjmrh. Þetta er alveg rétt. Kosningu í bankaráð Íslandsbanka var hagað svo, að áhrif bankaráðsins gætu ekki verið nema lítil. Því var hagað svo til oft og löngum, að menn úr fjarlægum landshlutum voru kosnir til að eiga sæti í bankaráðinu. Þessir menn mættu í hæsta lagi á einum eða tveim bankaráðsfundum; það var allt og sumt. En það er nú orðin allmikil breyting á þessu, og þegar talað er um afskipti bankaráðsins síðustu árin og forsrh., sem hefir verið formaður bankaráðs Íslandsbanka, þá er þar öðru máli að gegna, því að með þeirri reglugerð, sem gefin var út um starfsemi og rekstur Íslandsbanka 1923, af þáverandi atvmrh., Klemens Jónssyni. — ég man ekki, hvort hann var þá líka fjmrh., kemur breyting í þessu efni. Með þeirri reglugerð er gert ráð fyrir því, að bankaráðið og þá sérstaklega forsrh., sem á að vera formaður, fylgist vel með og hafi glöggar gætur á öllum rekstri bankans. Þar er gert ráð fyrir samstarfi milli framkvæmdarstj. bankans og fulltrúaráðs, þannig, að framkvæmdarstj. hafi rétt til að mæta á fundum bankaráðsins og hafi þar fullkomið málfrelsi. Ennfremur er gert ráð fyrir því, að forsrh., sem formaður bankaráðsins, hafi aðgang að umr. framkvæmdarstj. um ýmislegt, sem að þessu lýtur. Auk þess er svo ákveðið í þessari reglugerð, að þá eina menn megi skipa í fulltrúaráð, sem séu búsettir í Rvík.

Ég ætla, að það sé þess vegna öllum ljóst, af með þessari breyt. er málinu fullkomlega stefnt inn á þá braut, að bankaráðið og forsrh. séu í náinni samvinnu við framkvæmdarstj. og fylgist með öllu, sem þar fer fram. Af þessu leiðir aftur það, að bankaráðið og forsrh. eru samábyrgir framkvæmdarstj. fyrir bankanum að svo miklu leyti, sem þar getur verið um ábyrgð að ræða.

Ennfremur er svo ákveðið í þessari reglugerð, að forsrh. skuli, auk þess, sem áður er talið um samstarf bankaráðs og framkvæmdarstj., hafa sérstakan rétt til þess, hvenær sem hann vill, að heimta sýnt og sannað, að málmforði bankans sé í hinu lögákveðna hlutfalli við seðla þá, sem í veltu eru, og auk þess hefir hann aðgang að umr. framkvæmdarstj. og rétt til þess, hvenær sem vera skal, að láta sýna sér bækur bankans og skjöl.

Það þarf ekki að eyða orðum að því, í hvaða augnamiði þetta er gert. Það er gert út þess, að forsrh. sem formaður bankaráðsins eigi alltaf kost á því að fylgjast með rekstri bankans, og er það þá vitanlega skylda hans að grípa í taumana, ef hann sér, að í óefni er stefnt. Af þessu leiðir það, að að því leyti, sem hæstv. forsrh. hefir verið að fella dóma á og sakfella einstaka stjórnendur eða bankastj. Íslandsbanka, hlýtur að því leyti, sem hægt er með nokkurri sanngirni að áfellast stj. bankans fyrir þau óhöpp, sem þar eru kunn orðin, sú skuld alveg eins að falla á bankaráðið, og það því fremur á hæstv. forsrh., sem gert er ráð fyrir, að hann hafi íhlutunarrétt um mál bankans og fylgist vel með öllum framkvæmdum, sem gerast viðvíkjandi bankanum.