10.04.1931
Neðri deild: 43. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 644 í C-deild Alþingistíðinda. (1326)

32. mál, ræktunarsamþykktir

Sveinn Ólafsson:

Hv. 1. þm. N.-M vildi bera á móti því, að umráðarétturinn væri tekinn af jarðeigendum með ákvæði 14. gr. frv. Til þess að sýna fram á, að þetta er ekki rétt hjá hv. þm., þarf ekki annað en að lesa upp þessa gr., og hljóðar hún þannig: „Ábúandi fer jafnan með atkvæði fyrir ábýli sitt. Er eigendum þeirra jarða á samþykktarsvæðinu, sem í leiguábúð eru, skylt að hlíta ræktunarsamþykktum fyrir jarðir sínar, án þess að samþykkis þeirra sé leitað sérstaklega“.

Ég get ekki betur séð en að umráðarétturinn sé gersamlega tekinn af jarðeigendum með þessu ákvæði. Sé svo ekki, þá kann ég ekki máls of skil.

Hv. 1. þm. N.-M. sagði, að til væru ákvæði í vatnalögunum, hliðstæð þessu. Ég man nú ekki eftir slíkum ákvæðum í vatnalögunum, en auðvitað heimila þau eignarnám í mörgum tilfellum, þegar vatn þarf að nota til almenningsþarfa, og er það að vísu óskyld ráðstöfun ákvæðum 14. gr. þessa frv., en víðtæk takmörkun eignarréttar.

Hv. þm. hélt því fram, að ef 14. gr. væri breytt í það horf, sem brtt. mín fer fram á, þá gæti það orðið til þess, að samþykktir mistækjust, vegna mótstöðu jarðeigenda. En það er einmitt tekið fram í frv., að þó að nokkrir menn í hreppi, sem vill koma á ræktunarsamþykktum, skerist úr leik, þá geti hinir gert samþykktir allt fyrir það, ef þeir eru í nægilegum meiri hl., og verði þá minni hl. að beygja sig og hlíta samþykktunum. Auðvitað er hugsanlegt, að jarðeigendur verði mótfallnir samþykktum í einstökum tilfellum, en við því verður ekki gert.

Að því er snertir þær ráðleggingar hv. 1. þm. N.-M., að láta hv. Ed. lagfæra frv., þá get ég ekki fallizt á, að þessari hv. deild sæmi það, að skjóta til hv. Ed. málum, sem eru stórgölluð, í því trausti, að Ed. sjái við öllum misfellum.

Þá tel ég, að 11. gr. frv. sé einnig óframbærileg. Er ég sammála hv. þm. Borgf. (PO) um það, að ekki eigi að hagga neitt við þeim eignum, sem menn gefa í guðsþakkar skyni, eftir dauða sinn.

Ég álít, að bezt sé að taka frv. út af dagskrá, svo að hv. flm. og aðrir, sem vilja styðja að þessari tilraun til aukinnar ræktunar, fái tækifæri til að bera sig saman um frv. og sníða af því annmarkana. Ég ber ekki sjálfur fram till. um þetta, en vil aðeins benda hv. flm. á þetta og tel það heillavænlegt ráð málsins vegna. Að öðrum kosti neyðist ég til þess að ganga á móti frv.