11.04.1931
Neðri deild: 44. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 652 í C-deild Alþingistíðinda. (1340)

35. mál, lendingarbætur á Eyrarbakka

Frsm. minni hl. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Eins og sjá má af þskj. 189, hefi ég lagt fram sérstakt nál. En mér heyrðist á hv. frsm. meiri hl. eins og hér væri öll n. að verki um það nál., sem hann var að tala fyrir, en það eru ekki nema 4 af 5 nm.

Mér er ekki kunnugt um þá miklu vinnu, sem hv. meiri hl. hafi lagt í rannsóknir þessa máls, eða þá bregður a. m. k. illa við. Mér skilst n. aðallega byggja á umsögn vitamálastjóra, og niðurstaðan hefir orðið eftir því. Ég sneri mér til þess manns, sem er þessu máli miklu kunnugri, en það er aðstoðarverkfræðingur hans. Hann leit nokkuð öðrum augum á málið. Áætlun hans fylgir frv., og hann taldi, að á þessu stigi væri ekki þörf á neinum frekari undirbúningi viðvíkjandi garðinum, sem hann álítur mjög mikilsvert atriði fyrir það, sem síðar verður gert.

Ég hefi í nál. gert nokkra grein fyrir því, hve knýjandi nauðsyn er á byggingu garðsins. Sandburður úr Ölfusá inn á bátalegurnar er svo mikill, að hætta er á, að hafskipum verði innan skamms lítt fært að athafna sig þar. Nú geta allir skilið, hver hætta er á ferðum um aðflutninga fyrir allt Suðurlandsundirlendið, þegar fjallferðir eru tepptar og aðalhöfninni ófært að taka á móti hafskipum. Síðastliðinn vetur voru heiðarnar svo fullar af snjó, að eitt sinn varð að senda skip með bjargráð handa sýslubúum. Þetta getur alltaf komið fyrir. Annað er það, að þetta er allstórt kauptún með 600 íbúum, sem verður að hafa lendingu fyrir sæmilega stór skip, því að nokkur skilyrði eru til þess, að þarna geti þróazt útvegur fyrir mótorbáta, 20– 30 smálesta.

Ég veit nú ekki, hvort hv. meiri hl. hefir greint svo mjög á við mig um þetta. Á ræðu hv. frsm. var að skilja, að hann teldi nauðsynina ríka. En til hvers er þá þessi dráttur? Ég fæ ekki séð, að málið sé svo hraklega undirbúið, að ekki megi samþ. það. Ég hefi orðið var við margar beiðnir um lendingarbætur, sem ekki hafa verið betur undirbúnar en þetta frv., nema síður sé.

Hv. frsm. taldi vafa á því, hvort þessi fyrirhugaði garður mundi koma að notum. Það má vel vera, að við séum ekki herrar yfir því, og jafnvel að verkfróða menn greini þar á. En eftir öllum þeim lögmálum, sem hægt er að reikna eftir, þá er líklegt, að vegna garðsins dreifist sandurinn það langt út á haf, að hann fari fram hjá lendingunni. — Annað atriði er, hvort garðurinn muni þola brim. Um það getur líka verið vafi. En nú er gert ráð fyrir, að hafa garðinn úr sementssteypu og svo traustan, að hann þoli brimrótið. En þótt nokkur efi kunni að leika á um þetta, þykir mér sjálfsagt að gera tilraun um hleðslu garðsins, því að svo mikið er í húfi. Nokkur atvinna mun og skapast við þetta, og býst ég við, að Eyrbekkingum mundi koma það vel eins og útlitið er nú.

Ég ætla ekki að vitna í nein þingtíðindi, eins og hv. frsm. meiri hl. Þar sem liggur fyrir skýr kostnaðaráætlun, er undirbúningur nægilegur, og mjög sómasamlegur, eftir því sem venja er til um lendingarbætur. En ég vil ekki draga málið með því að binda það við væntanleg hafnarmannvirki.

Ég get sparað mér lengri formála. Mín afstaða er þessi, og þess vegna get ég ekki fylgt hv. meiri hl. að málum.