11.04.1931
Neðri deild: 44. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 655 í C-deild Alþingistíðinda. (1343)

35. mál, lendingarbætur á Eyrarbakka

Magnús Torfason:

Það er rétt sagt hjá hv. frsm. meiri hl., að mál þetta var ekki í upphafi eins vel undirbúið og maður hefði óskað. Og ég get gjarnan játað, að hefði ekki staðið sérstaklega á, hefði maður ekki borið þetta mál fram hér á þingi að sinni, heldur látið frekari rannsókn fara fram en þegar hefir verið gerð. En það, sem hefir knúið málið áfram, er blátt áfram það, að of seint er að byrgja brunninn, þegar barnið er dottið ofan í. Í fyrrasumar þótti mönnum svo sem málinu lægi ekki meir á en að það mætti bíða eftir því, að verkfræðingarnir fullkomnuðu mælingar sínar og áætlanir. En þegar leið á sumarið og í haust fór sandburðurinn að ágerast meir og meir, og við það brá mönnum svo í brún, að allir áhugamenn á Eyrarbakka fóru að leggja kapp á, að málið væri borið fram þegar og gæti gengið fram á þessu þingi. Nú sagði ég þeim, að eftir venju og vegna hins örðuga árferðis mætti tæplega búast við, að hafizt yrði handa á þessu ári. Þeir svöruðu því til, að hvað sem því liði, yrðu þeir sjálfir að reyna að hafa öll útispjót til þess að verjast sandinum. Enda er það sannast að segja, að þeir eiga þar góða að. Það er ekki aðeins hreppsfélagið og sýslan, sem þar eiga hlut að máli, heldur vill svo til, að Landsbankinn er eigandi þeirra jarða, sem næstar liggja þessu fyrirhugaða mannvirki. Það, sem liggur á, er að koma upp þessum sandvarnargarði, og undirbúningur til þess er eins góður og hægt er að fá. Það er tekið fram í nál. meiri hl., að þessi garður sé aðeins skoðaður sem tilraun til þess að bægja sandinum frá, og þetta er haft eftir vitamálastjóra. Mér dettur ekki í hug að mótmæla því, að rétt sé með orð hans farið. En þá verð ég að lýsa yfir því, að vitamálastjóri hafði ekki þau orð við mig. Hinsvegar get ég skilið, að ef þeir hafa farið að krefja hann sagna, þá hafi hann sagt, að hann vildi ekki hafa ábyrgð á verkinu. Það er alveg sama og hann sagði við Þorlákshafnarundirbúninginn. Þá tók hann skýrt fram, að hann vildi ekki bera neina ábyrgð á verkinu. Nú gefur hann sömu svör. En hér er um ólíkar lendingar að ræða. Þarna eru hvorki meira né minna en þrír skjólgarðar fyrir legunni, og hver einasta brimalda verður að fara yfir þá alla, og við það dregur úr henni máttinn. Reynslan sýnir líka að þessir skjólgarðar duga vel. Árið 1926 var byggð bryggja og það voru fyrstu lendingarbæturnar þar, og kostuðu 40 þús. kr. Menn spáðu auðvitað misjafnlega. En það hefir ekki molazt einn steinn úr bryggjunni enn, ekki kvarnast nokkur ögn. Þegar maður spyr fróða menn, hverju það megi þakka, svara þeir, að það hljóti að vera af því, að mátturinn er farinn úr brimöldunum við það að komast yfir þessa þrjá varnargarða. Ég býst við, að þeir, sem hafa komið á Eyrarbakka í sæmilegu veðri, hafi séð, að höfnin þar er alveg eins kyr og innan við hafnargarðinn í Reykjavík.

Ég sagði í framsöguræðu minni fyrir málinu hér í deildinni, að það, sem þyrfti að gera frekar en bryggjuna, sem komin er, og sandgarðinn, sem áætlun er til um, væri að laga lendinguna, sprengja sker á leiðinni inn og nokkrar smánibbur á hafnarlegunni sjálfri, En þetta hvort tveggja á að gera að verkum, að mun stærri skip en verið hefir geti komizt inn á leguna. Og það er öll þörf á því, að greiða fyrir flutningi á þungavörum sjóleiðis til Eyrarbakka, ef þess er kostur. Þess háttar sprengingar og laganir niðri í sjó verða ekki gerðar án þess að staðurinn hafi verið kortlagður. Ég verð að lýsa yfir því mér til leiðinda, að ég vissi ekki af því, að nú þegar væri til uppdráttur yfir Eyrarbakkahöfn. En hann hefir verið búinn til árið 1915. Þá ætlaði sá gamli danski eigandi, Lefoli, að fara að hefjast handa með lendingarbætur. En svo kom ófriðurinn, og hann seldi síðan allar eignir sínar. Uppdrátturinn er gerður af sjóliðsmönnunum dönsku, sem mælt hafa hér við land. Hann er allnákvæmur og stór og ennþá nákvæmari en sá, sem til er af bátalegunni á Stokkseyri, en hann var þó það eina, sem látið var duga til undirbúnings þar. Annars er það sannast, að það eru kunnugir menn, sem þekkja hverja mishæð í botninum og alla staðhætti, sem bezt geta sagt fyrir um, hvernig verkið skuli vinna. — Mér þykir mikið, að vitamálastjóri skyldi ekki vita af uppdrættinum. En það stendur sjálfsagt svo á því, að hann var í eigu fyrrnefndrar verzlunar og gekk þaðan til Landsbankans, sem varð handhafi eignanna.

En þegar ég kom austur á sýslufund um daginn, var það af tilviljun, að þetta mál kom til tals við einn starfsmann Landsbankans þar fyrir austan. Og hann segir mér frá því, að þetta kort sé til. Þess vegna er til undirbúningur undir þessi mannvirki, alveg eins fullkominn og heimtað hefir verið þegar um önnur slík mannvirki hefir verið að ræða. Svo get ég sagt, að ég hefi talað við Finnboga Rút Þorvaldsson frá Sauðlauksdal, sem er einhver sá efnilegasti af okkar ungu mönnum, sem fást við þessi störf, og hefir sérstaklega fengið orð fyrir það, að áætlunum hans megi treysta, líka hvað kostnað snertir. Og hann var í engum vafa um það, að þetta mannvirki gæti staðizt. Eftir að nál. meiri hl. kom út, fór ég til hans aftur, og hann dró þá ekkert úr fyrri orðum sínum.

Hitt er satt, að fyrir opnu hafi er aldrei hægt að ábyrgjast mannvirki fyrirflóðum, sem hugsanleg eru. Hv. frsm. meiri hl. getur ekki heldur tekið ábyrgð á slíkum haföldum þarna norður á Skálum. En ég býst við, að menn miði ekki við slík náttúrufyrirbrigði, fremur en t. d. landskjálfta. Við vitum, að farið er að byggja mikið af steinhúsum á Suðurlands-undirlendinu. Og þó getur vel verið, að jarðskjálfti taki það allt saman á 2–3 sek. Maður fer bara ekkert eftir því.

Það var mikið gert úr öllum áætlununum um Þorlákshöfn. Það átti einu sinni að verða milljónafyrirtæki. En svo var það alltaf að minnka, unz það var siðast, þegar ég bar það fram hér á þingi, ekki orðið nema 80 þús. kr., eins og hér er nú gert ráð fyrir. En sá munur var á, að bak við það mannvirki stóðu stórlaxar í Reykjavík. Þorlákshöfn var sérstök eign þeirra. En þessar jarðir, sem hér liggja að, eru opinber eign, og svo eru það hreppur, eða jafnvel hreppar, og sýsla, sem standa að verkinu.

Nú var það dregið í efa af hv. frsm., að nokkur þessara aðilja vildi hefjast handa. Eins og ég sagði, var ekki gert ráð fyrir því í fyrra. En eftir því sem fram hefir liðið, hefur vaxið upp mikill áhugi fyrir því að byrja undir eins. Verkinu er hægt að haga þannig, að byrja á nokkrum hluta af sandgarðinum, og verkfræðingar hafa fallizt á það í samtali við mig. Garðurinn mundi þá strax koma að gagni og taka við sandinum, meðan er að fyllast að honum að utanverðu. Nú er það vist, að einstakir menn og hreppur og sýsla gera það, sem þau geta til þess, að verkið verði hafið í sumar. Ég hefi fengið tilboð um 5 þús. kr. til þess frá áhugamanni á Eyrarbakka, og fleiri eru reiðubúnir að leggja fram fé. Ætlunin er sú, að þeir, sem að þessu standa, byrji sjálfir með því að leggja fram peninga til framkvæmdanna í von um að fá sinn hlut endurborgaðan úr ríkissjóði síðar.

Ég skal svo ekki tefja deildina með lengra máli um þetta. En ég vænti þess, að hv. sjútvn. sjái, að miklar upplýsingar hafa komið fram og undirbúningur er meiri en búizt var við, þegar hún hafði málið fyrir. Enda skildi ég orð hv. frsm. þannig, að honum væri ekkert fast í hendi, að málið væri drepið. En hann 42 endaði með því að segja, að hann óskaði heldur eftir því, að málið yrði ekki samþykkt að sinni. Og ég býst við, að eftir þessar upplýsingar megi honum og öðrum hv. þdm. þykja meinfangalaust, þó að frv. nái samþykki.