11.04.1931
Neðri deild: 44. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 659 í C-deild Alþingistíðinda. (1344)

35. mál, lendingarbætur á Eyrarbakka

Frsm. meiri hl. (Benedikt Sveinsson):

Ég mun ekki þreyta þetta mál kappi, því að mér dylst ekki, hve mikils virði höfn á Eyrarbakka gæti verið og lendingarbætur þar, ef þær mættu að gagni koma. En hitt þykir mér allósýnt, hvort ekki mundi koma í sama stað, þótt lagasetning um þetta fengi að biða frekari rannsókna.

Hv. 4. þm. Reykv. virtist gramur okkur meðnefndarmönnum sínum í sjútvn. fyrir það, að ekki væri minnzt á sig í nál. okkar. Hann væri þó 1/5 hluti af nefndinni og hefði gefið út sérstakt nál. (SÁÓ: En hv. frsm. talaði eins og fyrir alla nefndina). Þegar ég skrifaði nál., vissi ég ekki betur, en að nefndin væri sammála. En hv. þm. var veikur af landfarsótt þá er fullnaðarályktun var tekin í n. og var hans því eigi við kostur um né eina greinargerð sína. En fyrir varygðar sakir létu aðrir nefndarmenn þess getið, að þm. þessi hefði eigi verið viðstaddur síðustu úrslit málsins. Ég hygg því, að réttur hv. þm. sé alls eigi fyrir borð borinn og því hreinasti óþarfi að koma með nokkrar snuprur fyrir það. Nefndin hefir unnið hlýlega saman og samir því trautt að gera veður út af slíku aukaatriði í fyrsta sinn sem nefndin klofnar í máli — og það eftir á. En ég vil láta þetta eiga sig. Við verðum sjálfsagt jafngóðir vinir eftir sem áður, fyrir slíka smámuni, bæði utan nefndar og annarsstaðar.

Hv. þm. (SÁÓ) skýrði málið lítilsháttar frá sínu sjónarmiði, en mér fannst lítið á tillögum hans að græða. Hann talaði fyrir allt Suðurlandsundirlendið og 600 íbúaþorp og um höfn fyrir „sæmileg skip“. Því miður er ekki sú höfn á Eyrarbakka, að nokkurt strandferðaskip hafi fengizt til að fara þar inn. Ég vildi gjarna, að hægt væri að bæta höfnina svo, að slíkt mætti verða. En að setja Eyrarbakka í samband við snjóana á Hellisheiði er heldur fjarstætt. Því að ég ætla, að bændum í uppsveitum austur þar, Tungum, Skeiðum, Grímsnesinu góða og Gull-Hreppunum — að Flóanum ógleymdum, þætti það lítil bót, þó að veittar væri 80 þús. kr. úr þeirra sjóði gegn „jafnmiklu“ eða þó minna „annarsstaðar frá“ til lendingarbóta á Eyrarbakka, einkum þegar helmingurinn væri lagður í sandvarnargarð vestur við Ölfusá, sem enginn lifandi maður á jarðríki veit, hvort að nokkru gagni kemur.

Hv. þm. taldi, að undirbúningur væri sæmilegur, eftir því sem venja væri til. Ef til vill má finna þessum orðum nokkurn stað. Hann nefndi Stokkseyrarhöfn, eða Snepilrásina svonefndu. En þar var aðeins um það að ræða að sprengja nokkur sker á helztu leið inn á leguna. — En ég vil leyfa mér að spyrja — þurfti að setja nokkra sérstaka löggjöf eða lagasetningu um það efni? — Ekki minnist ég þess. Þessar umbætur komu að fullum notum, þótt þær væru einungis studdar með fjárveitingu í fjárlögum. Ég vil því benda á, að fara mætti sömu leið til þessara framkvæmda. Þá væri farið að þeirri lögvenju, er vel hefir reynzt.

Hv. þm. gramdist það, að ég leitaði í þingtíðindunum að samskonar dæmum. Það er gott að byggja á reynslu liðins tíma, og ekki annarsstaðar betra að leita hennar en í þessari skilríku bók.

Um traustleik garðsins er ekki hægt að segja frekara en í nál. Ég hefi ekki talað við Finnboga Rút Þorvaldsson, og vildi hv. 4. þm. Reykv. saka mig um það. En þessi góði þm. hefir ekki talað við Thorvald Krabbe, yfirmann þessara mála, um þetta efni. Vitamálastjórinn segir, að þetta (þ. e. hleðsla garðsins) sé aðeins tilraun. Það má vissulega alltaf lengja garðinn og hækka hann — en hversu kostar það mikið fé og að hverju gagni mundi það koma? — Annars er það nú nokkuð viðurkennt, að verkfræðingum getur skjátlazt. En vanalega eru þeir full-bjartsýnir heldur en bölsýnir um útreikninga sína.

Skal ég alls eigi fara neitt út í þá sálma, en aðeins leyfa mér í því sambandi að nefna gamlan kunningja þingsins, brimbrjótinn í Bolungavík.

Þá er ég kominn að hv. 1. þm. Árn. (JörB). Hann taldi, að undirbúningur málsins væri góður og í öðru lagi, að garðinum stafaði mest hætta af sandburðinum úr Ölfusá. Það er að vísu ekki hægt að rengja áætlun verkfræðingsins, eins og hún liggur fyrir. Hvort hún stenzt, mun reynslan sýna, ef garðurinn verður byggður. En ég vil benda hv. þm. á það, að verkfræðingurinn tekur það fram, að garðinum stafi ekki hætta af árstraumnum, heldur af sjávarganginum og mun það réttilega athugað.

Hv. 1. þm. Árn. sagði, að Eyrarbakki væri eina höfnin, sem nokkurs væri verð, á allri ströndinni frá Keflavík og austur allt til Hornafjarðar, því að ekki væri hægt að telja Vík og Rangársand. Nú er því svo farið, að til Eyrarbakka hefir lítið verið siglt flutningaskipum undanfarinn áratug. Hafa siglingar á hinn fornfræga stað, Eyrar, lagzt mjög niður. Bendir það til þess, að höfnin hafi verið farin að spillast frá því í fornöld, þótt skip fornmanna væru að vísu grunnskreiðari en vor. Fólk hefir og fækkað mikið á Eyrarbakka á seinni árum og verzlun horfið þaðan að mestu.

Hv. 1. þm. Árn var hræddur um, að lítið mundi græðast á því, að slá málinu á frest. En á því mundi þó græðast það, að hægt væri að undirbúa málið á viðeigandi hátt, en það væri að renna blint í sjóinn, að fara að samþ. málið eins og það liggur nú fyrir. Hv. þm. nefndi Þorlákshöfn sem dæmi þess, að ekki væri gott að draga slík mál á langinn. Hefði mestöll útgerð þar verið niður lögð, er lendingarbætur voru loks gerðar þar. Ég er nú ekki viss um, nema Þorlákshöfn hefði hnignað jafnmikið, þótt lendingarbætur hefðu verið gerðar þar 10–15 árum fyrr. Og að minnsta kosti er það fullvíst, að umbætur þær, er sýsla og ríkissjóður hafa látið gera þar, hafa að alls engu gagni komið til eflingar útgerð eða útræði á þeim fornfræga stað. Ef afli bregzt einhversstaðar um nokkurn tíma, þá flytja sjómenn þaðan til annara betri staða. Get ég ekki séð, að neinn skaði sé skeður, þótt fiskiver leggist niður, ef skilyrði eru verri þar en annarstaðar. Það geta ekki allsstaðar verið fjölmenn kauptún í landi með aðeins 100 þús. íbúa, og er því bezt, að fólkið flytjist til þeirra staða, þar sem hægast er að komast af. Þeir fiskimenn, sem áður voru í Þorlákshöfn, eru nú dreifðir víðsvegar, og stunda nú sjó frá Reykjavík, Akranesi, Vestmannaeyjum eða öðrum stöðum.

Hv. 1. þm. Árn. féllst á það, að rétthermt væri það, að fyrirhleðslan væri aðeins tilraun.

Hv. 2. þm. Árn. (MT) talaði sanngjarnlega um málið og viðurkenndi, að undirbúningur þess væri ekki svo góður sem skyldi. En þar eystra væri mjög mikill áhugi fyrir því, að hafizt yrði handa og sandburðurinn úr Ölfusá hindraður. En hann bætti við, að vitamálastjóri vildi ekki bera neina ábyrgð á verkinu. Kemur þetta fullkomlega heim við það, er ég sagði frá viðtali hans við nefndina. Er það að öðru leyti sízt til þess að auka traust á áætlun verkfræðingsins.

Það mun rétt, sem hv. þm. sagði, að hafnarbryggjan stendur vel á Eyrarbakka, enda er sandburður að henni sama sem enginn, og þrefaldur skerjagarður fyrir utan, eins og hv. þm. tók réttilega fram, svo að ekki er að undra, þó að 40 þús. kr. bryggja geti staðið þar um tíma. En það sannar ekkert um það, hvort garður muni standa vestur hjá Ölfusárósum, þar sein öldur Atlantshafsins svífa óbrotnar að landi.

Hv. þm. sagði vilja Árnesinga um hafnarbætur á Eyrarbakka, að dýpka og breikka hafskipaleiðina og sprengja þar nibbur og sker. Þá upplýsti hann einnig, að til væri uppdráttur hafnarinnar, er gerður hefði verið af herforingjaráðinu árið 1915. Væri það góð undirstaða fyrir verkfræðingana að byggja á og þeim mjög til flýtis.

Hv. þm. sagði, að hafnarbæturnar á Stokkseyri hefðu ekki verið betur undirbúnar. En þá er þess að gæta, að til þeirra var veitt lítið fé, um 12 þús. kr., en hér er farið fram á 80 þús. Var því ekki ástæða til þess að krefjast svo fullkominnar áætlunar um þær.

Þá drap hv. þm. á mannvirki þau, sem gerð hafa verið á Skálum á Langanesi. Þau styðja einmitt þá skoðun mína, að ekki skuli leggja fram fé til slíkra mannvirkja, fyrr en fullrannsakað sé, hvað þau muni kosta. Áætlun sú, sem gerð mun hafa verið á Skálum, hefir alls ekki staðizt. Hefir það komið sér stórlega illa, því að hvergi hefir fengizt fé til þess að greiða mismun kostnaðar og áætlunar. Hefir sá inn mikli munur lent á þeim er sízt skyldi, bláfátækum verkamönnum, sem unnu að verki þessu heilt sumar, í fullu trausti um skilvíslega greiðslu áður lyki. Hafa sumir þeirra að vísu fengið nokkurskonar bréf fyrir greiðslu kaups síns, en á hvern þau hljóða, veit enginn, og hríðfellur verðið sífellt á þessum verðbréfum. Hefi ég samkvæmt kröfum inna fátæku og illa blekktu verkamanna skorað á fjvn. Nd. Alþingis að taka þetta mál til gagngerðrar rannsóknar og greiða svo úr því, að þessir menn, táldregnir og úrræðalausir, megi að lokum ná rétti sínum fullkomlega. — Öll þeirra vandræði stafa af því, að eigi var fullrannsakað í upphafi, hvað verkið mundi kosta.

Hv. þm. sagði, að ekki væri unnt að gera mannvirki svo úr garði, að máttug náttúruöfl, eins og t. d. jarðskjálftar, fengi þeim eigi grandað. Við því væri ekkert hægt að gera. Hv. þm. segir þetta réttilega, að því er kemur til þeirra „náttúruafla“, er enginn veit, hvenær láti til sín taka, né þekkja mátt þeirra, svo sem er um jarðskjálftana. En hér er nokkuð öðru máli að gegna. Allir þekkja hina máttugu hafsjóa, er skella á suðurströnd landsins, —

„— því hafgang þann ei hefta veður blíð, sem voldug reisir Rán á Eyjasandi, þar sem hún heyir heimsins langa stríð“.

Haustrigningar geta jafnvel brugðizt hér við land, en hið æðandi brim við suðurströndina hefir aldrei brugðizt.

Hv. þm. taldi langæskilegast, að hefjast þegar handa og byrja á verkinu, og til dæmis um áhuga manna þar eystra sagði hv. þm., að einn maður á Eyrarbakka hefði boðizt til að leggja fram 5000 kr., svo að hægt væri að byrja á verkinu strax í sumar. Mér lízt vel á, að byrjað sé þegar á verkinu, og reynt að bægja frá þeim háska, er af sandburðinum stafar.

Samkv. frv. er ekki ætlazt til mjög bráðra framkvæmda á þessu verki, eins og „ákvæði um stundarsakir“ bera með sér, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Til byrjunar á sandgarðinum til þess að bægja sandburði úr Ölfusá má ríkisstjórnin, þegar ástæður ríkissjóðs leyfa, verja allt að 20 þús. kr. úr ríkissjóði, gegn jafnmiklu framlagi annarsstaðar að og öðrum sömu skilyrðum og í lögum þessum segir“.

Ég vil benda hv. þdm. á það, að greiðasta leiðin til þess að fljótt verði byrjað á verkinu, er sú, að bíða ekki eftir því, að ríkisstjórnin leggi fram fé til þess, þegar henni finnst að ástæður ríkissjóðs leyfi, heldur að taka fjárveitingu til þess hluta verksins, sem þegar hafa verið gerðar áætlanir um, upp í fjárlög næsta árs. Ég get sagt það af minni hálfu, — þótt ekki sé ég vanur að binda atkvæði mitt fyrirfram, — að ég greiði gjarnan atkvæði með fjárveitingu í fjárlögum til þessara mannvirkja nú þegar á þessu þingi, ef hv. þm. Árn. fylgja því fastlega fram.

Skal ég svo ekki eyða hinum dýrmæta tíma þingsins í lengri umr. um málið.