11.04.1931
Neðri deild: 44. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 667 í C-deild Alþingistíðinda. (1349)

35. mál, lendingarbætur á Eyrarbakka

Frsm. minni hl. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Ég hefi ekki ástæðu til að fara um þetta mál mörgum orðum, enda skilst mér, að fátt hafi komið fram í umr. og nál. hv. meiri hl., sem talizt geti rök gegn því, að frv. þetta fái fram að ganga. En hitt vildi ég leiðrétta í ræðu hv. frsm. meiri hl., að ég hafi ekkert látið uppi í n. um stuðning minn við málið. Á fundi þeim, sem málið var tekið fyrir á, gat ég ekki mætt vegna veikinda. Á næsta fundi n. mætti svo Krabbe vitamálastjóri til viðtals, en á þeim fundi gat ég ekki heldur mætt, en eftir þetta samtal við vitamálastjóra virðist svo meiri hl. n. taka sína afstöðu um afgreiðslu málsins. En þegar mér var kunnugt um þá niðurstöðu, féll mér hún ekki, og lét þess þá strax getið, að ég kæmi með sérstakt nál. Þó mun það ekki hafa verið hv. frsm. (BSv), heldur annar maður í n., sem átti till. um rökstuddu dagskrána.

Hinsvegar verð ég að taka undir það, að málið í heild er ekki eins vel undirbúið eða upplýst og skyldi. Þó tel ég það ekki fullnægjandi ástæðu til þess að bregða fæti fyrir það nú, og legg því til, að frv. verði samþ. óbreytt.

Þá sagði hv. frsm. meiri hl., að ég hefði að óþörfu blandað inn í nauðsyn hafnarbóta á Eyrarbakka vetrarflutningum yfir Hellisheiði. En það gerði ég með vilja, enda skilst mér ekki betur en að hér sé um mjög skyld og nákomin mál að ræða. Mér finnst það veigamikil ástæða fyrir hafnargerð á Eyrarbakka, að vetrarflutningar yfir Hellisheiði geta alltaf teppst. En þegar svo fer, er engin önnur leið til bjargar, en komið verði upp góðri höfn á Eyrarbakka, svo aðflutningar haldi þá áfram sjóleiðina. Það er líka á allra vitorði, að flutningar á stórum skipum borga sig betur en með þeim farartækjum á landi, sem við höfum um að velja. En þá verða skipin að geta hafnað sig hvenær sem er. Nú er helzt útlit fyrir, að við Eyrarbakka geti stærri skip ekki hafnað sig vegna grynninga á skipalegunni. Er því brýn nauðsyn að hefjast þegar handa og koma í veg fyrir að sandburður inn á leguna aukist úr því sem nú er.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri, enda þykist ég hafa fært full rök fyrir mínu máli.