11.04.1931
Neðri deild: 44. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 670 í C-deild Alþingistíðinda. (1351)

35. mál, lendingarbætur á Eyrarbakka

Frsm. meiri hl. (Benedikt Sveinsson):

Það hefir fátt eitt markvert komið fram í ræðum þeirra hv. þdm., sem tekið hafa til máls síðan ég lauk ræðu minni, svo að ég leiði hjá mér að svara því nema örfáum orðum.

Þó þykir mér það ekki ómerkilegt atriði, sem þeim ber á milli, hv. 1. þm. Rang. og hv. 2. þm. Árn., um sandburðinn úr ósi Ölfusár. Hv. 1. þm. Rang. heldur því fram, að sandurinn berist utan frá ósnum og grynni lónin að vestan. En hv. 2. þm. Árn. er á gagnstæðri skoðun og fullyrðir, að sandurinn berist austan með landinu og bátalegan grynnist fyrst að austan og síðan af sandburði vestur með. Verður þá næsta torskilið, hvernig þessi fyrirhugaði garður, sem liggur alllangt fyrir vestan öll „lón“ og „leiðir“, á að geta komið að nokkrum notum.

En ef það er rétt, sem hv. 2. þm. Arn. hefir haldið fram, að sandburður þessi sé framburður Ölfusár, virðist helzt verða að skilja svo, sem sandurinn fari fyrst einhverja djúpleið utan við skerjagarðinn, austur á bóginn, berist síðan að landi við austanverðan Eyrarbakka og snúi svo út með ströndinni, þangað til hann sezt að í lónunum í skipalegunni. Á annan veg er ekki hægt að skilja þetta, nema ef vera kynni, að hér væri um sandburð að ræða frá ósi Þjórsár, sem þó er næsta ósennilegt, þar sem ós hennar liggur allfjarri. Annars er þetta hulinn leyndardómur, og á meðan svo stendur, virðist ekki ástæða til að leggja stórfé í strandvarnargarð, sem með öllu er óvíst um, hvort komið geti að nokkrum notum.