11.04.1931
Neðri deild: 44. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 679 í C-deild Alþingistíðinda. (1378)

38. mál, hafnargerð á Akranesi

Frsm. minni hl. (Sveinn Ólafsson):

Það verður ekki deilt um nauðsyn hafnarbóta á þessum stað, enda hefir hv. frsm. meiri hl. tekið fram, að ágreiningurinn sé eingöngu um tillag ríkissjóðs.

Það er auðsætt, ef að er gætt, að á hverjum tíma hefir verið í því efni farið eftir getu héraðs þess, er í hlut hefir átt. Hinsvegar hefir enginn föst regla myndazt um þetta til þessa. Þó gilti sú regla framan af, að ríkissjóður lagði aðeins fram 1/4. Sú regla gilti um Reykjavíkurhöfn 1911 og um Vestmannaeyjahöfn 1913. Framlagið hefir síðan hækkað smámsaman. Um nokkra stefnubreytingu 1929 er ekki að ræða. Áður hafði ríkissjóður lagt fram 1/3, til annarar og þriðju gerðar Vestmannaeyjahafnar og 1/3 til hafnar í Hafnarfirði gegn 2/3 frá hafnarsjóði bæjarins. Þetta frv., sem miðar við, að framlag ríkissjóðs sé 2/5, er sniðið eftir lögunum um hafnargerð á Skagaströnd, sem til urðu 1929. En hafnarlögin fyrir Skagaströnd verða til út af sérstökum landsháttum og með sérstökum skildaga, sem hvergi hefir verið settur annarstaðar. Þingið leit svo á að hér væri fremur um lendingarbætur en hafnargerð að ræða. Enda hefir skilyrðunum ekki verið fullnægt, þrátt fyrir 2/5 úr ríkissjóði.

Það má því líta á hafnarlögin fyrir Skagaströnd sem hreina undantekningu, sem ekki er hægt að hafa að fyrirmynd, nema þar, sem líkt stendur á. Skagaströnd er einasti staðurinn á stóru svæði, þar sem gæti verið neyðarlending, því að önnur notandi höfn er ekki til við Húnaflóa, nema þá Borðeyri eða Strandahafnirnar vestan flóans. Var því ástæða til að taka sérstakt tillit til þessa.

Ég ætla ekki að fjölyrða mikið um þetta mál, það er þaulkunnugt öllum hv. þdm. frá síðasta þingi, og langar umr. munu ekki breyta skoðun hv. þm. um þetta efni. Minni hl. sjútvn. leggur sem sé til, að fylgt verði í þessu máli sömu aðferð og oftast hefir fylgt verið áður um hafnarlagafrv., eins og líka fylgt var með Hafnarfjörð 1929 og Vestmannaeyjahöfn síðari árin, að veita úr ríkissjóði 1/3 hluta kostnaðar, en hinsvegar ábyrgð tekin af ríkissjóði á því, sem hafnarsjóður kann að þurfa til þess að geta komið hafnarmannvirkinu á. Munurinn eftir till. minni hl. er í raun og veru að því er þetta frv. snertir aðeins sá, að úr framlagi því, sem frv. gerir ráð fyrir, að ríkissjóður leggi fram, eru fluttar 80 þús. kr. til ábyrgðarupphæðarinnar, miðað við það, að ríkissjóður greiði 1/3 hluta alls kostnaðar, en öll var höfnin áætluð að kosta 1200000 kr. Minni hl. leggur því til, að ríkissjóður greiði 400 þús. kr., en ábyrgðarheimildin sé færð úr 500 þús. kr. upp í 580 þús.

Að hér er ekki um að ræða 2/3 kostnaðar, stafar af því, að í frv. er ekki óskað eftir meiri ábyrgð en 500 þús. kr., eða því, sem stjórn hafnarsjóðs telur sig þurfa að taka að láni til þess að ljúka hafnargerðinni, sem nú þegar er komin nokkuð á veg.

Ég vil alls ekki hafa á móti því, að á þessum stað sé rík þörf hafnar og hjálpar við héraðið til að koma henni upp. Ég vil heldur ekki hafa á móti því, að á þessum stað sé góð tekjuvon fyrir ríkissjóð af fyrirhuguðum hafnarbótum. Ég kannast þvert á móti við það, að Akranes sé með álitlegri verstöðvum landsins, og vil líka taka undir það með hv. frsm. meiri hl. n., að á Akranesi hafi verið gengið rösklega og drengilega að verki um endurbætur lendingar, en ég verð líka að halda því fram, að Akurnesingum sé sýnd fullkomin viðurkenning með því, að ríkið bjóði fram 1/3 alls kostnaðar og ábyrgð á hinu. Ekki var veitt meira til Vestmannaeyja, en þar er líka einhver allra stærsta verstöð landsins, ein af þeim, sem ríkissjóður mætti sízt við að missa, og ég sé ekki betur en Akurnesingar sitji þó að betri kostum en Vestmannaeyingar, sem til fyrstu gerðar hafnar sinnar fengu aðeins 1/4 frá ríkissjóði. Óefað er það, að hafnargerð á Akranesi eykur þar útveg, en meiru skiptir þó hitt, að með henni fæst öryggi eigna og manna.

Annars sé ég ekki ástæðu til að þrátta lengur um málið. Það verður að fara sem auðið er um till. minni hl., hvort þær verða samþ. eða ekki. En sennilegt væri, að hv. þdm. vildu láta þessi öll hafnarlagafrv., sem fyrir liggja, sæta líkri meðferð. Mér virðist þau eigi öll nokkurn rétt á sér, þótt þörfin sé misjafnlega brýn. Ég vil ekki taka svo mikið tillit til þess, þó að einn staðurinn kunni að vera eitthvað líklegri til tekjuauka fyrir ríkissjóð, því að á öðrum stað getur líka komið til greina brýnni þörf, þar sem t. d. er hafnlaust á stórum svæðum. Við afgreiðslu þessara hafnarmála má þá heldur ekki gleymast, að fjölmargir staðir með ströndum landsins eiga eftir að koma fram með kröfur um hafnarbætur, og undan þeim kröfum verður ekki komizt, þótt enn verði þær að bíða.