11.04.1931
Neðri deild: 44. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 684 í C-deild Alþingistíðinda. (1380)

38. mál, hafnargerð á Akranesi

Pétur Ottesen:

Ég vil þakka hv. frsm. meiri hl., hvað vel og drengilega hann hefir tekið í þetta mál, hvað mikinn skilning hann hefir sýnt á nauðsyn þess, að það nái fram að ganga.

Eins og hv. frsm. tók fram og einnig er bent á í nál., eru þarna á Akranesi einhver beztu skilyrði, sem til eru á öllu landinu, til þess að auka bátaútveginn stórkostlega mikið. Eins og menn vita, er Faxaflói einhver mesta gullkista landsmanna, sökum veiðisældar hans á vetrum. En engin trygg bátahöfn er til við hann nú, sem þeir bátar geta sótt frá á miðin, sem daglega þurfa að koma til lands. Menn hafa því ekki aðstöðu til að nota þá miklu möguleika, sem hér eru fyrir hendi, geta ekki fært sér verulega í nyt fjársjóði þá hina miklu, sem fiskimið Faxaflóa hafa að geyma, fyrr en trygg höfn er komin á Akranesi. Hinsvegar er hér að ræða um svo mikið verk, að það er ekki hægt að framkvæma án mikillar fjárhagslegrar aðstoðar frá ríkinu. Að því stendur aðeins einn hreppur, allstór að vísu, með sýsluna að bakbjalli. En áætlað er, að verkið muni kosta 1200 þús. kr., svo hér er í rauninni um stórvirki að ræða, á okkar mælikvarða.

Hv. frsm. minni hl. fer nú í slóð sína frá síðasta þingi og vill draga úr því framlagi, sem frv. gerir ráð fyrir frá ríkissjóði. Hann vill ekki viðurkenna, að fordæmi hafi verið skapað 1929 um framlög til hafnargerða yfirleitt. Ég vil nú reyna að sýna fram á, að það er miklu fremur meiri en minni ástæða til að styrkja hafnargerð á Akranesi heldur en á Skagaströnd. Enginn getur a. m. k. gengið lengra en það að segja, að Skagaströnd hafi jafnan rétt til framlags úr ríkissjóði til hafnargerðar eins og Akranes. Möguleika til fiskveiða á þessum stöðum þarf ekki að bera saman. Reynslan sýnir, að ekki hefir komið á land á Skagaströnd nema örlítið brot á móts við afla þann, sem lagður hefir verið á land á Akranesi.

Ein aðalástæðan, sem fram var borin fyrir því, að styrkja ætti ríflega höfnina á Skagaströnd, var sú, að þar væri um svo mikla útflutningshöfn að ræða. Í því sambandi vil ég benda hv. frsm. minni hl. á það, að eins er ástatt um Akraneshöfn. Eins og nú er, er hún eina útflutningshöfnin í Borgarfjarðarhéraði, og aðalútflutningshöfn Hnappadalssýslu og nokkurs hluta Snæfellsnessýslu, má bæta við. Eins og samgöngum er nú háttað, sækja menn þaðan verzlun suður í Borgarfjörð. Hvað útflutning og verzlun snertir hefir því Skagaströnd enga yfirburði fram yfir Akranes, nema síður sé.

Út af því, hvort skapað hafi verið fordæmi um framlög til hafnargerða árið 1929, með samþykkt l. um hafnargerð á Skagaströnd, er rétt að drepa á gang málsins í þinginu þá. Frv. var flutt af stjórninni, var þar gert ráð fyrir ekki aðeins að greiða helming kostnaðar úr ríkissjóði, heldur einnig að lána hinn helminginn úr viðlagasjóði. Svo komu fram brtt., miðaðar við það, að greiddir væru 2/3 hlutar kostnaðar úr ríkissjóði, eins og gert var. Einnig komu fram till. um að greiða 1/3 hluta kostnaðar úr ríkissjóði, en þær voru felldar í báðum d. Ætla ég því, að þarna hafi komið allskýrt í Ijós, að það var vilji Alþ. 1929, að dýrar hafnargerðir væru kostaðar að 2/5 hlutum af ríkinu. Ég hefi nú enn rakið gang þessa máls til að sýna skýrt og áþreifanlega, að með samþykkt laganna um hafnargerð á Skagaströnd var lagður grundvöllur að fjárframlögum úr ríkissjóði til stærri hafnargerða. Framhjá því verður ekki komizt.

Hv. frsm. minni hl. minntist á Hafnarfjarðarhöfnina. Það er rétt, að styrkurinn til hennar var lægri heldur en styrkurinn, sem ákveðinn var í fögum um hafnargerð á Skagaströnd og sem frv. fer fram á til Akraneshafnarinnar. En það er um hafnargerð í Hafnarfirði, eins og til dæmis að taka um hafnargerðina í Reykjavík, að kostnaðurinn við hafnargerðina, miðað við þær tekjur, sem víst er um að höfnin gefur, er miklu minni hlutfallslega en á öðrum stöðum á landinu.

Ég ætla, að ekki þurfi fleiri orð um þetta til að sýna það og sanna, að ný stefna er fram komin í fjárveitingum til hafnargerða, sem náð hefir lögfestingu. 1929 var skapað fordæmi, sem ber að skoða þannig, að með því hafi verið lagður grundvöllur fyrir afgreiðslu samskonar mála í framtíðinni. Og fyrir þeim grundvelli fékkst staðfesting á síðasta þingi, engin breyting frá stefnu þingsins 1929 í þessum málum kom þá fram. Þetta frv. var þá flutt, ásamt fleiri hafnarfrv., á sama grundvelli og nú — tveggja fimmtu hluta framlagi úr ríkissjóði — og var samþ. þannig af Nd. Till. minni hl. um að lækka framlögin voru felldar. Það var aðeins af því tími vannst ekki til að afgreiða þessi frv. í Ed., að þau voru ekki endanlega samþ. eins og þau liggja nú fyrir.

Út af því, sem sagt er í nál. minni hl., og í framhaldi af því, seni ég hefi þegar sagt um nauðsyn hafnarinnar á Akranesi, vil ég enn aðeins benda á 2 atriði til að sýna það, að þessi hafnargerð hefir þjóðhagslega þýðingu, langt út fyrir takmörk héraðsins.

Það hefir verið svo um langt árabil, að bátar víðsvegar af landinu hafa sótt hingað í veiðistöðvarnar við Faxaflóa til vetrarveiða. En það hefir verið í minni mæli en ella sökum þess, að aðstaðan á þessum veiðistöðvum hefir ekki verið sú, sem æskilegt hefði verið, bæði hvað snertir öryggi bátanna og afgreiðslu þeirra. Það er áreiðanlegt, að ef komið væri upp sæmilegri höfn á góðum stað við flóann, eins og Akranes er, þá mundi þessum aðkomubátum, sem sækja hingað til veiða, fjölga mjög. Þess vegna hefir hafnargerð á Akranesi mjög víðtæka þýðingu; hún getur orðið öðrum veiðistöðvum til beinna hagsmuna.

Í öðru lagi vil ég benda á það, að hvað samgöngur snertir hefir ekki önnur höfn meiri þýðingu en Akraneshöfn. Það vantar ekki annað en trygga höfn, sem skapar möguleika til daglegra ferða á sjó milli Akraness og Reykjavíkur, til þess að aðalsamgöngurnar á landi milli Rvíkur annarsvegar og Norður- og Vesturlands hinsvegar leggist um Akranes, þegar vegurinn þaðan vestan Hafnarfjalls að Hvítárbrú er fullgerður, sem verður innan skamms, Það er þannig sama, frá hvaða hlið er litið á þetta mál, alstaðar kemur í ljós, hvað það hefir mikla og víðtæka þýðingu fyrir þjóðina í heild. í nál. er drepið á, að að þessu verki standi blómlegt hérað og að þar sé meiri fjármunageta til framkvæmda heldur en annarsstaðar.

Því verður ekki neitað, að miðað við þá erfiðu aðstöðu, sem menn þarna hafa haft til sjósóknar vegna hafnleysis, er afkoma þeirra góð, eftir því sem gerist. Það eru ekki nema 5 ár síðan Akurnesingar fengu þá aðstöðu, er þeir nú hafa, til að sækja á fiskimiðin heiman að frá sér. Og þó þeir hafi fært sér hana í nyt af miklum dugnaði þennan stutta tíma, þá leiðir af sjálfu sér, að þeim hefir ekki tekizt að byggja upp neina sjóði til þeirra framkvæmda, sem hér er um að ræða, enda urðu þeir að kosta miklu til að skapa þessa aðstöðu, þó hún ófullkomin sé. Fjárhagsgeta þeirra til að hrinda í framkvæmd slíku stórvirki sem höfnin er, er þess vegna mjög takmörkuð, það leiðir af sjálfu sér, enda mælir fyllsta sanngirni með því, að slíku mannvirki sem hafnargerðin á Akranesi er verður ekki hrundið í framkvæmd með öðru móti en með ríflegum atbeina þess opinbera.

Ég þarf svo ekki að fara fleiri orðum um nauðsyn þessa máls, né hitt, að það, sem farið er fram á í frv., er í fullu samræmi við þann vilja þingsins, sem fram hefir komið í þessum efnum síðan 1929.

Ég vil benda hv. 4. þm. Reykv. á það, að mér finnst það lítið samræmi hjá honum að vilja færa styrkinn til hafnarinnar á Akranesi niður í 1/3 kostnaðar, þegar hann hefir á sama fundi greitt atkv. með, að ríkið leggi helming kostnaðar fram til lendingarbóta annarstaðar. (SÁÓ: Það hefir verið venja að styrkja verk eins og þar er um að ræða með helmingi kostnaðar). Nei, það hefir ekki verið regla að veita helming kostnaðar til garða, sem byggðir eru til að verja hafnir, heldur hafa þeir verið kostaðir að Vá af ríkinu, eins og bryggjugerðir. (SÁÓ: Fiskifélagið hefir bætt við). Ég veit ekkert um, hvað Fiskifélagið hefir gert, enda er ekki verið að ræða hér um framlög frá því. Ég endurtek það, að hv. frsm. minni hl. sýnir fyllsta ósamræmi í framkomu sinni, ef hann heldur fast við brtt. sínar við þetta frv., eftir að hafa greitt atkv. með frv. um lendingarbætur á Eyrarbakka óbreyttu.

Þá á ég aðeins eftir að minnast á 3. brtt. á þskj. 218. Með henni á að koma inn í frv. heimild handa hreppsnefndinni til að taka eignarnámi lönd og lóðir, sem að höfninni liggja. Ég vil benda á, að í frv. er nú fyllsta heimild til að taka það land eignarnámi, sem bygging hafnarinnar krefst. En að setja svo víðtæka heimild til eignarnáms í framtíðinni í frv. sem felst í brtt., án þess að viðkomandi aðilar hafi nokkra ósk látið í ljós um það, það finnst mér bæði ástæðulaust og óþarft. Ég er viss um, að ef einhverntíma verður fyrir hendi þörf til slíkra ráðstafana, þá muni þingið vega réttilega ástæðurnar með því og móti á hverjum tíma, og komi fram nægilega gildar ástæður fyrir því, að almennings hagsmunir krefjist eignarnáms á landi til handa höfninni, fram yfir það, sem frv. óbreytt heimilar, þá efast ég ekki um, að þingið muni leyfa það.

Þessi brtt. er ekki fram komin að vilja Akurnesinga, því till. í sömu átt kom fram á þingmálafundi þar í vetur, og var felld. Það hagar þannig til á Akranesi, að mikill hluti af þorpinu liggur að höfninni, þannig að undir ákvæði brtt. gæti heyrt hér um bil öll strandlengjan meðfram kauptúninu. Hv. frsm. minni hl. (SvÓ) hefir alltaf verið mótfallinn því, að þingið geri ráðstafanir til eignarnáms, þegar ekki hefir verið tvímælalaus nauðsyn á því. Hann hefir oft greitt atkv. á móti því, þegar átt hefir að smeygja slíkum ákvæðum inn í löggjöf okkar. Ég vænti þess, að hann verði samkvæmur sjálfum sér, þegar farið verður að greiða atkv. um þessa brtt.

Ég vona, að þetta mál fái nú afgreiðslu til hv. Ed, þegar í kvöld. Akurnesingar eru þegar byrjaðir á þeim framkvæmdum, sem frv. ræðir um, og þeim er ákaflega mikilsvert að geta haldið því áfram á næsta sumri. Það hagar svo til, að hver viðbót, sem gerð er við hafnargarðinn, kemur þegar að notum. Því meira sem hann er lengdur, því betra hlé myndast, sem greiðir mjög fyrir afgreiðslu skipa. Ég vona, að hv. þd. verði samkvæm sjálfri sér og afgreiði þetta frv. á sama hátt og hún gerði í fyrra. Með þessari hafnargerð er lagður grundvöllur að framþróun í atvinnulífi þjóðarinnar, sem menn geta vænzt að skera mikið upp af, bæði fyrir einstaklinga og ríkið í heild.