25.02.1931
Neðri deild: 9. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 695 í C-deild Alþingistíðinda. (1392)

40. mál, hafnargerð á Sauðárkróki

Flm. (Magnús Guðmundsson):

Það er svipað um þetta mál að segja eins og frv. um hafnargerð á Akranesi, sem síðast var til umr., að það er gamall kunningi hér í deildinni. Við þm. Skagf. fluttum það í fyrra, og þá var það samþ. í Nd., en dagaði uppi í Ed. Nú er það flutt eins og það fór úr deildinni í fyrra.

Við flytjum þetta mál óbreytt eftir einróma áskorun funda þar fyrir norðan. Þetta mál er eitthvert mesta áhugamál Skagfirðinga, og ég get sagt með fullri vissu, að enginn munur er á því eftir flokkum. Ég vil því vona, að enginn flokkadráttur komizt að í þessum máli og það verði útrætt á þinginu.

Maður skyldi halda, að í rauninni væri ekki nauðsynlegt, að þessu máli, sem tvisvar er búið að vera í nefnd í Nd. og hefir verið samþ. af hv. d., væri vísað til n. En það þætti kannske kenna nokkuð mikils ofurkapps, ef ekki væri það gert, og vil ég því fylgja fordæmi hv. þm. Borgf. og leggja til, að málinu verði vísað til sjútvn. En ég vil um leið beina eindregnum óskum um það til n., að hún afgreiði það sem allra fyrst, svo að ekki verði hægt að bera því við í Ed., að málið hafi svo seint komið þangað, að ekki hafi verið tími til þess að athuga það nægilega.