11.04.1931
Neðri deild: 44. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 696 í C-deild Alþingistíðinda. (1409)

40. mál, hafnargerð á Sauðárkróki

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

Ég mun reyna að verða við óskum hæstv. fors., að lengja ekki umr. úr hófi fram. Langar umr. geta ekki heldur talizt nauðsynlegar, þar sem búið er að ræða ítarlega um flest þau atriði, er þetta mál varðar, í sambandi við umr. þær, er fram fóru um næsta mál á undan hér í deildinni (hafnargerð á Akranesi). Að vísu er sá munur á, að meiri hl. n. í því máli leggur á móti samskonar brtt. og meiri hl. í þessu máli mælir með.

Ég sé enga ástæðu til að endurtaka ástæðurnar fyrir brtt. meiri hl. n.; það var gert í næsta máli á undan. En þess vil ég geta, að ég tel, að hafnargerð á Sauðárkróki sé brýnust þeirra hafnargerða, sem nú liggja fyrir þinginu til úrlausnar. Er sú skoðun mín byggð á því, að þar er á stóru svæði nær hafnlaust. Er ekkert þaðan annað hægt að flýja en til Siglufjarðar, þegar ekki er hægt að taka höfn á Sauðárkróki. Nær er ekki um örugga höfn að ræða. Meiri hl. n. hefir litið svo á, að skilyrði til hafnargerðar á Sauðárkróki væru þess leiðis, að héraðinu væri vel fært að leggja af mörkum 2/3 kostnaðar. Í því sambandi vil ég geta þess, að fordæmið frá hafnarlögum Skagastrandar er alls ekki bindandi fyrir þingið og kemur því alls ekki til greina, fremur en fordæmið frá Rvíkurhöfn 1911, þegar ríkið lagði fram 1/4. Annars eru till. meiri hl. um framlag og ábyrgð ríkissjóðs í samræmi við það, sem minni hl. n. lagði til í næsta máli á undan.

Ég vil svo ekki eyða tíma í að ræða þetta frekar. Ég ætla a. m. k. að bíða þess, að mótmæli komi fram, eða þá að tilefni gefist með því að dregin verði fjarskyld atriði inn í málið. Læt ég því umr. lokið að sinni.