11.04.1931
Neðri deild: 44. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 698 í C-deild Alþingistíðinda. (1411)

40. mál, hafnargerð á Sauðárkróki

Frsm. minni hl. (Hákon Kristófersson) [óyfirl.]:

Ég skal vera stuttorður, vegna þess að ég tel nauðsyn til þess bera, að þessi þrjú samkynja frv. fái sömu meðferð og afgreiðslu. Þetta frv. er líka þaulrætt frá fyrri tíma og er því hreinn óþarfi að hafa langa ræðu. Við hv. þm. Vestm. leggjum til, að frv. verði samþ. óbreytt. Meiri hl. — eða þó aðeins 2/3 meiri hl. — vill samþ. það með breytingum. En 1/3 meiri hl., hv. þm. N.-Þ., vill drepa frv. Hefir hann lýst því yfir, að það sé af þeirri sýnilegu ástæðu, að fé sé ekki fyrir hendi. Er ég að vísu sammála honum um það. En þess ber að gæta, að um fjárframlög til þessara hafnargerða fer eftir áliti og getu viðkomandi þinga, þegar sótt verður um fé til þeirra. Við, sem erum í minni hl., sjáum þó engan voða framundan, þótt þetta verði samþ. Hv. frsm. meiri hl. hefir gefið þessu frv. beztu meðmæli sín, enda þótt hann vilji draga nokkuð úr fjárframlagi ríkissjóðs til framkvæmdanna. Hann sagði, að ekki mætti líta á l. um hafnargerð á Skagaströnd sem fordæmi, er mætti fara eftir. Mér þótti nú satt að segja merkilegt að heyra þessu haldið fram af jafnstálgreindum manni sem hv. frsm. óneitanlega er. Ég verð þá að álíta, að það hafi verið af flokkslegum ástæðum, að þeirri hafnargerð var veitt þessi sérstaða á þinginu 1930. Annars vil ég engar deilur vekja, enda þess eigi þörf. Ég býst líka við því, eftir það, sem fram fór í dag, að hv. þm. séu svo heiðarlegir og orðheldnir menn, að eftir þau samtök, sem þá komu í ljós, séu líka afdrif þessa og næsta máls ráðin. Ég vil þó ekki ætla, að þar hafi verið um nein hrossakaup að ræða. Býst ég við, að framgangur þeirra hafi verið ráðinn á heilbrigðara grundvelli. Þó verð ég að færa samþykkt Eyrarbakkafrv. á reikning síðasta málsins, þessa og hins næsta. Annars stendur það álit okkar minni hl. manna óhaggað, að þessi frv. ber að samþ. og að fjárframlag til þeirra á að vera á valdi Alþingis.