05.03.1931
Neðri deild: 16. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í B-deild Alþingistíðinda. (142)

79. mál, lögtak og fjárnám

Flm. (Jón Auðunn Jónsson):

Þetta frv. er flutt til þess að létta innheimtu í stærri kauptúnum. Eins og nú er, þá er það ekki löglegt að auglýsa lögtak á opinberum gjöldum utan kaupstaða með einfaldri auglýsingu, heldur verður að birta hverjum einstökum manni lögtakið, ef það þarf fram að fara. En það kostar mikla fyrirhöfn og veldur óþörfum kostnaði og óþægindum við innheimtu, því að margir borga ekki gjöld sín fyrr en þeir sjá, að þau muni verða tekin hjá þeim lögtaki. Þetta er líka dýrt fyrir gjaldendur. Ég veit mörg dæmi þess, að kostnaðurinn við birtingu lögtaksins hefir orðið hærri en upphæð sú, sem taka átti lögtaki.

Frv. er flutt eftir einróma óskum margra kauptúna fyrir vestan, og vænti ég þess, að hv. d. fallist á það.

Ég hefi ekki viljað ganga svo langt að leggja það til, að sömu ákvæði gildi fyrir sveitirnar, því að þar getur vel staðið svo á, að hlutaðeigendum gefist ekki kostur á að sjá auglýsinguna um lögtakið, ef hún er aðeins birt á þennan hátt. Í sveitum er innheimtan líka léttari og fólk þar yfirleitt skilvísara á opinber gjöld.

Ég legg svo til, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til allshn.