31.03.1931
Neðri deild: 38. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1075 í C-deild Alþingistíðinda. (1420)

194. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Flm. (Héðinn Valdimarsson):

Ég sagði hæstv. forseta það, þegar ég bað hann að taka þetta mál sem fyrsta mál á dagskrá í dag, að ég myndi ekki halda langa framsöguræðu, þar sem þetta mál hefir verið rætt áður á mörgum þingum.

Það er öllum kunnugt, hversu bærinn hefir vaxið á síðustu árum, t. d. hefir hann vaxið um 59% síðan 1920 þegar núgildandi lög um tölu þm. fyrir Reykjavík voru sett. Þá voru íbúar Reykjavíkurbæjar 17670, en í des. 1930 voru þeir orðnir 28182. Jafnframt þessari fjölgun fólksins hefir þingmannatalan staðið í stað. Það sjá nú allir, hvaða vit er í þessu. Reykjavík á réttlætiskröfu til miklu fleiri þm. en hún hefir nú. Þetta frv. er því flutt samkv. almennum óskum bæjarbúa, og reyndar í samræmi við eðli og anda hinna almennu kenninga um kosningarrétt. Ég vænti þess, að málinu verði vísað til 2. umr. og til allshn.