10.04.1931
Neðri deild: 43. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1076 í C-deild Alþingistíðinda. (1427)

194. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Frsm. meiri hl. (Héðinn Valdimarsson):

Eins og álit allshn. á þskj. 330 ber með sér, tók einn nm. ekki þátt í afgreiðslu þessa máls. Er sú ástæða til þess, að n. tók málið fyrir til afgreiðslu laugardaginn fyrir páska, en þá var þessi nm. fjarverandi úr bænum. Hefir hann síðan komið til bæjarins og borið fram sérstakt nál., sem prentað er á þskj. 354. — Hv. þm. V.-Sk. hefir ekki getað orðið sammála okkur meðnm. sínum um afgreiðslu málsins. Leggur hann til, að frv. verði fellt, en við hinir, að það verði samþ., þótt við að vísu séum misjafnrar skoðunar um það, hversu langt skuli ganga í þá átt að fjölga þm. hér í Reykjavík. Hvað okkur 3. þm. Reykv. snertir, get ég sagt það, að við teljum réttmætt í alla staði, að þm. Reykv. sé fjölgað upp í 9, en þar eð við viljum umfram allt fá fram einhverjar réttarbætur Reykjavík til handa í þessu efni, höfum við teygt okkur til samkomulags við hv. 1. þm. Skagf. og berum ásamt honum fram brtt. við frv. á þskj. 331, þess efnis, að Reykjavík skuli fá 6 þm. í stað 4, sem bærinn nú verður að sætta sig við. Hefir hv. 1. þm. Skagf. síðan borið fram í samráði við okkur þá brtt. við hina sameiginlegu brtt. okkar, að þm. Reykv. verði fjölgað aðeins upp í 5. Ber að skoða þessa brtt. sem varatill. við aðaltill., og munum við hv. 3. þm. Reykv. greiða henni atkv., ef svo illa og ósanngjarnlega tekst til, að aðalbrtt. verði felld. Fer því þó fjarri, að sanngjörnum kröfum Reykvíkinga sé fullnægt með þessu, en hér er þó um að ræða spor í áttina, og verður það eftir atvikum að telja viðunandi í bili.

Eins og ég áður tók fram, hefir sá samnm. okkar, sem ekki gat tekið þátt í afgreiðslu málsins með okkur vegna fjarveru sinnar úr bænum, borið fram sérstakt nál. Er það nál. um margt undarlegt, og skal ég því drepa lítillega á það. Þessi hv. samnm. okkar, hv. 2. þm. Árn., hefur nál. sitt með því að bera okkur starfsbræður sína þeim brigzlum, að við höfum ekki gefið okkur tóm til að hugsa þetta mál, eins og nál. okkar beri glöggt vitni um. Er það að vísu rétt, að nál. okkar er ekki mikið fyrirferðar, en hv. 2. þm. Árn. ætti ekki að koma slíkt á óvart, því að þetta mál hefir verið rætt mjög, bæði hér á þingi og annarsstaðar, og skortir í engu upplýsingar um það. Er og málið þann veg vaxið, að ekki ættu að geta sprottið deilur um réttmæti þess. — Þá er hv. þm. að fetta fingur út í það, að við skyldum taka okkur bessaleyfi til að starfa, allshnm., að honum sjálfum fjarveranda. Þykir honum það býsn mikil, að við skyldum nota páskahelgina til að afgreiða málið. Er þessu því til að svara, að málið var afgr. laugardaginn fyrir páska. og það, að við hirtum ekki að bíða eftir því, að hv. þm. kæmi úr páskaleyfinu, en afgreiddum málið án hans, byggist á því. eins og ég áður sagði, hversu þetta liggur ljóst fyrir, enda sjáum við ekki, hvað hefði getað breytt afgreiðslu málsins, þótt hann hefði verið viðstaddur. — Hv. 2. þm. Árn. heldur því fram, að af því mundi leiða stjórnarfarslega byltingu, ef þm. Reykv. yrði fjölgað upp í 9. En hvað er í raun og veru að óttast stjórnarfarslega byltingu yfirleitt? Það er mér ekki fyllilega ljóst, ef byltingin er réttmæt. En nú er það svo, að ég fæ með engu móti séð, að svo geti orðið, því að ég hygg, að fjölgunin mundi skiptast niður á flokkana. Má jafnvel gera ráð fyrir því, að flokkur hv. þm. sjálfs mundi græða eitt þingsæti við þetta. Annars skiptir þetta hér ekki máli, þar sem aðeins er um að ræða að fjölga þm. Reykv. um 2 þm., eða jafnvel ekki nema einn. Nál. hv. þm. er því gersamlega óþarft og út í hött.

Læt ég svo útrætt um þetta að sinni, en ég vænti þess fastlega, að hv. þm. sýni þessu sanngirnismáli velvild, enda þótt flestir þeirra þm., sem setu eiga hér í þessari deild, séu úr sveit, en ekki búsettir hér í Reykjavík eða öðrum bæjum.