10.04.1931
Neðri deild: 43. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1082 í C-deild Alþingistíðinda. (1432)

194. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Lárus Helgason:

Eins og nál. á þskj. 330 ber með sér, er ég andvígur þessu frv. Ég hefi þó ekki séð ástæðu til að koma með sérstakt nál., en vil hinsvegar gera grein fyrir afstöðu minni til málsins með fáum orðum.

Ég veit ekki betur en að þm. séu yfirleitt kosnir fyrir allt landið, en ekki einstaka skekla þess, þ. e. vinni með sanngirni og víðsýni að hverju máli, og því get ég ekki séð, að ástæða sé til að vera að færa til þingmannatölu, þótt íbúafjöldi kaupstaðanna breytist eitthvað. Eins og þegar hefir verið sýnt fram á, er alls ekki óvanalegt, að hin stærri kjördæmi hafi hlutfallslega færri fulltrúa en hin smærri, og þarf reyndar ekki að fara út fyrir landsteinana til að finna slík dæmi. Ég veit t. d. ekki betur en að hver hreppur sendi einn fulltrúa á sýslufund, án tillits til þess, hvort hreppurinn er stór eða lítill. Í þessu er ekki verið að rekast, þótt sumir hreppar hafi margfalda íbúatölu á við aðra. Þetta skipulag hefir ekki komið að sök, og ég hefi ekki orðið var við neitt reiptog út af þessu. En hv. þm. Reykv. virðast vera gjarnir á reiptog, og væri það nokkur vorkunn, ef þeir hefðu rekið sig á, að þeir hefðu verið ofurliði bornir, eða ef Reykjavík væri svo stór, að þeir kæmust ekki yfir að benda á það, sem þar horfir til hagsbóta. En nú eru yfir 20 þm. búsettir í Rvík. Þeir munu allir vera sæmilega kunnugir högum Reykjavíkur, svo að í því efni er Reykjavík vel borgið. Ég get því ekki séð, að Rvíkurbúar þurfi að vera óánægðir þótt þeir hafi færri þm. eftir íbúatölu. Að þingmannafjöldi eigi alveg að fara eftir íbúafjölda, er fjarstæða, eins og hér hagar til.

Í gær var rifizt hér um stækkun Reykjavíkur og atkv. greidd um það mál í dag. Fyrst á að stækka Reykjavík á kostnað annara sveitarfélaga, og svo kemur jarmur um fjölgun þm. á eftir. Þetta er óeðlilegt reiptog, sem gjalda verður varhuga við. Þingmenn eiga að líta á landið sem eitt bú, og bezta trygging fyrir hyggilegri starfsemi þingsins er, að á því eigi sæti menn, sem kunnugir eru í sem flestum landshlutum. Ég er því eindregið andvígur frv., og jafnframt þeim brtt., sem fram hafa komið við það, því að þó að þær gangi töluvert skemmra, er augljóst, hvað á bak við er. Ég get ekki betur séð en að hér sé um allmikla ásælni að ræða af Reykjavíkur hálfu.