10.04.1931
Neðri deild: 43. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1083 í C-deild Alþingistíðinda. (1433)

194. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Magnús Guðmundsson:

Mér skildist á hv. 2. þm. Árn., að hann teldi það einhverskonar svik hjá mér við meiri hl. n. að koma fram með brtt. á þskj. 360, um að þm. í Rvík skuli vera fimm, þar sem ég hefi skrifað undir nál., sem gerði ráð fyrir sex. Ég vil skjóta því til meiri hl., hvort það sé með ósamþykki hans, að þessi brtt. er fram komin.

Út af ummælum hv. 2. þm. Árn. vil ég benda á það, að fyrir liggur nú stjfrv., sem gengur í þá átt, að rýra kosningarrétt Reykvíkinga með afnámi landskjörs. Landskjörið hefir verið nokkur uppbót fyrir Reykvíkinga, því að þar var atkv. þeirra jafngilt atkvæðum annara landsmanna. Nú er ekki ólíklegt, að þetta frv. nái fram að ganga. Ég vil ekki, að Reykjavík sé gerður frekari óréttur en nú er, og með minna en einum þm. veður ekki komið í veg fyrir það.

Ég skal ekki fara að ræða um afnám landskjörsins að þessu sinni. Ég skal viðurkenna, að gallar eru á landskjörinu. En stjórnin verður að sjá, að ef á að fara að raska því kosningafyrirkomulagi, sem nú er, þá er ekki nema eðlilegt, að þeir, sem verða fyrir barðinu á þeim breyt., fari að athuga hvað er að gerast.

Hv. 2. þm. Árn. taldi, að bolmagn Rvíkur yxi mjög við þennan eina þm. Ég hygg, að það vaxi ekki meira en sem svarar afnámi landskjörsins.

Hv. þm. V.-Sk. sagði, að á sama stæði, hvar þm. væru kosnir og hverjir kysu þá. Ég efast nú um, að hann væri á þessu máli, ef það lægi fyrir að leggja niður V.-Skaftafellssýslu sem kjördæmi. Menn vilja kjósa í sem réttustu hlutfalli við mannfjölda, því að það er nú einu sinni svo, að það er fólkið, sem hefir kosningarrétt, en ekki t. d. kýr né kindur.

Ég segi ekki hér með, að þingmannafjöldi eigi að fara nákvæmlega eftir mannfjölda, en ég sé ekkert réttlæti í því, að ¼ þjóðarinnar ráði ekki kjöri nema 1/10 af þjóðarfulltrúunum.

Annars kæri ég mig ekki um langar umr. um þetta mál. Ég skal taka það fram, að ég hefði ekki talið ástæðu til að hreyfa þessari þingmannafjölgun, ef ekki hefði komið till. frá hæstv. stj. um að afnema 6 þingsæti, — þingsæti, sem óneitanlega eru uppbót fyrir Reykjavík.