13.04.1931
Neðri deild: 45. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1103 í C-deild Alþingistíðinda. (1456)

194. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Magnús Guðmundsson:

Ég þarf ekki að segja nema örfá orð út af því, sem hæstv. forsrh. sagði. Hann sagði, að það væri tilgangur minn og líklega alls þess flokks, sem ég telst til, að flytja valdið úr sveitunum. Ég vil nú þegar lýsa því yfir, að þetta er rangt. Það leiðir líka af sjálfu sér, að þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefir hér um bil helming sinna atkv. úr sveitum, þá muni hann ekki kæra sig um að flytja burt þaðan pólitíska valdið. Ég þykist vita, þó að hæstv. forsrh. haldi, að ekki sé mikið varið í mína vináttu til sveitanna, að þá haldi hann ekki, að meining Sjálfstæðisflokksins sé að vinna pólitískt sjálfsmorð.

Ef ég á að fara að skýra orð hæstv. forsrh., þá er hún þannig: Það er ágætt og sjálfsagt, þegar Framsókn gerir samband við jafnaðarmenn, en ef sjálfstæðismenn gera það, þá er það forkastanlegi. — Þetta er aðalinntakið í ræðu hans, en ég get ekki skilið þetta. Hann var að brosa því, hversu mikið hagur bænda hefði batnað og sagði, að það væri annað en áður var. En ég efast um, að bændum finnist léttara fyrir nú en áður. Það böl, sem mest þjakar sveitirnar, flutningur fólksins þaðan burt, hefir aldrei verið eins mikið og nú.

Hann viðurkenndi, að það hefði verið hann, sem riðið hefði á vaðið með breytingu kjördæmaskipunarinnar. Hann vill m ö. o. einn hafa leyfi til að breyta kjördæmaskipuninni eins og hann vill, Framsóknarflokknum í hag, því að þessi till. um afnám landskjörsins er fram komin fyrir hræðslu um, að Sjálfstæðisflokkurinn muni fá 4 landsk. þm. af 6 og að þeir hlytu þá að verða svo sterkir, að ómögulegt væri annað en þeir hefðu yfirráðin í Ed., eða a. m. k. svo mikinn styrk, að þeir gætu heft þar framgang mála. Það var því ekkert annað, sem vakti fyrir hæstv. ráðh. með till. um afnám landskjörsins, en að reyna að tryggja sjálfan sig áfram í valdasessinum, en ég tel mér bæði rétt og skylt að reyna að hindra það. En það vil ég þó taka fram skýrt og greinilega, að það mun ég aldrei gera með því að eyðileggja hið pólitíska vald sveitanna.

Hvort mér verður erfitt að ná kosningu norður í Skagafirði, skal ég ekkert um segja. Hæstv. ráðh. hefir spáð því áður, og hann hefir ekki reynt eins mikið að spilla fyrir kosningu nokkurs annars manns, en þó hefir farið eins og farið hefir, og það getur farið svo ennþá, en um það skal ég ekkert fullyrða. En þó að ég ætti í vændum að falla í Skagafirði, þá má hæstv. ráðh. ekki halda, að ég hviki frá því, sem ég álít rétt.