13.04.1931
Neðri deild: 45. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1104 í C-deild Alþingistíðinda. (1457)

194. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Mér finnst þessar umr. vera farnar að dragast nógu langt frá grundvelli málsins, þó að ekki sé enn á ný farið að draga inn í þær önnur mál, eins og hv. l. þm. n. Skagf. gerði, þar sem hann fór að tala um vinnukraft í sveitum og hvað miklar opinberar framkvæmdir verði á þessu ári. Það er erfitt að segja, hvort það verður ég, sem ræð því, hvað gert verður á þessu ári, þar sem hv. þm. vill láta annan vera kominn í þennan stól eftir fáa tíma, en ef ég má ráða, þá verða miklar opinberar framkvæmdir á þessu ári.

Hv. þm. sagði og vildi láta líta svo út, að með því að leggja sveitakjördæmin niður sem sérstök kjördæmi, t. d. Skagafjörð, þá væri það pólitískt sjálfsmorð. En hann veit sjálfur vel, að ef landinu er skipt niður í 5–6 kjördæmi, þá mun maður eins og hv. 1. þm. Skagf. vitanlega fá sæti svo ofarlega á lista, að honum sé viss kosning. Ég get vel séð það, að ef hann er hræddur um að dumpa norður í Skagafirði eins og hann er nú, þá er þessi aðferð til þess að tryggja hv. þm. þingsetu, til þess að forða honum frá pólitískum dauða norður í Skagafirði. Hér er því um að ræða alveg hið gagnstæða við það, sem hv. þm. sagði.

Hv. þm. sagði, að ég hefði sagt, að það væri eðlilegt, að Framsókn og jafnaðarmenn hefðu unnið saman að undanförnu, en „forkastanlegt“, eins og hann orðaði það, að slíkt ætti sér stað milli jafnaðarmanna og íhaldsins. Þetta hefi ég alls ekki sagt. Ég álít þvert á móti, eins og ég líka tók fram, að ýmislegt það gæti komið fyrir, sem réttlætti það, að jafnaðarmenn og sjálfstæðismenn ynnu saman. Ég sagði, að ef þeir vildu vinna að málunum í sameiningu, þá væri ekkert við það að athuga, eins og t. d. nú að vinna sameiginlega að breyttri kjördæmaskipun og taka pólitíska valdið af bændastéttinni. En ég álít, að það megi tala um það. Það á að koma hreint og skýrt fram. Þess vegna vildi ég láta það liggja ljóst fyrir, að þetta samband er komið á út frá þessum málefnum. En þeir eiga að kannast við það fyrir þjóðinni. Þeir eiga ekki að fara í felur með það.

Ég vil aðeins geta þess út frá því, sem hv. þm. sagði, að ég hefði ekki reynt eins mikið að spilla fyrir kosningu nokkurs manns eins og hans, að ég lagði mikla stund á að koma í veg fyrir, að hv. þm. heldi áfram að vera ráðh., en um þingmannskosningu hans vil ég segja það, að ég hefi tvisvar sinnum komið í Skagafjörð í pólitískum erindum. Í fyrra skiptið fyrir löngu síðan, en í síðara skiptið í sambandi við landskjörið 1926. En ég þekki aftur á móti dæmi til þess, að maður í þessari hv. deild hafi lagt mjög ríka áherzlu á að reyna að kenna mér úr Strandasýslu. Þá fór hv. þm. þangað norður rétt á eftir að ég hafði verið þar. Hann kom ekki einn á báti, heldur á varðskipi með hóp af aðstoðarmönnum og smölum með sér. Þeir héldu svo í hvern hrepp og heldu þar fundi, þar sem þeir gátu fengið einhvern til þess að hlusta á sig. En það endaði með því, að enginn maður vildi hlusta á þennan hv. þm. og hans fylgilið. Og eftir að hv. þm. hafði þannig farið eftir endilöngu kjördæmi mínu með alla þessa smala með sér, allt til þess að reyna á spilla fyrir mér, þá varð nú árangurinn ekki glæsilegri en það, að það voru eitthvað um 30% af atkv., sem þeir fengu. Hv. 1. þm. Skagf. hefir gert miklu meira til að fella mig en ég hann. En ef ég gæti einhverntíma afborgað eitthvað af þeirri skuld, þá væri mér það mikil ánægja.