26.02.1931
Neðri deild: 10. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 705 í C-deild Alþingistíðinda. (1469)

45. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Eins og sést á grg. þeirri, sem frv. fylgir, þá er frv. flutt eftir ósk ölgerðar hér í bænum, en nær þó jafnt til allra nýrra iðnfyrirtækja. Eftir núgildandi lögum ríkir misrétti í þessum efnum milli gamalla og nýrra fyrirtækja. Það hefði að vísu mátt jafna misréttið með því að afnema öll sérréttindi hinna gömlu fyrirtækja, og mér hefði verið jafnljúft að flytja frv. í þeirri mynd. En ég hygg, að sú löggjöf, sem sett hefir verið í þessu efni, verði að teljast samningur við hin eldri iðnfyrirtæki, þar sem hlunnindin eru tímabundin. því verður þetta ekki lagfært nema með því að veita öllum samskonar fyrirtækjum hin sömu hlunnindi. — Þetta er mjög einfalt mál, og skiptir litlu fyrir ríkissjóð, þar sem um aðeins örfá fyrirtæki er að ræða.

Legg ég svo til, að málinu verði að lokinni umr. vísað til fjhn.