27.02.1931
Neðri deild: 11. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í C-deild Alþingistíðinda. (1479)

49. mál, tollalög

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Efni þessa frv. er að lækka toll á kaffibæti, kaffi og sykri, um liðlega 1/3 af kaffibæti, úr 75 au. í 40 au., óbrenndu kaffi úr 60 au. í 40 au., brenndu kaffi úr 80 au. í 50 au. og sykri úr 15 au. í 10 au.

Vörur þessar munu vera til jafnaðar skattlagðar um 100%, en hreinar óhófsvörur eins og skartgripir ekki nema um liðl. 30% innkaupsverðs. Ég verð að játa, að frv. þetta er aðeins fyrsta skref í áttina. Þessi lækkun, sem frv. gerir ráð fyrir, er allt of lítil. Að því ber að stefna að afnema þessa tolla ásamt með öðrum nauðsynja- og þurftarvörutollum. Að þessu sinni má telja vonlaust um, að Alþingi, eins og það er skipað, fáist til þess að afnema tollana. Hefi ég því fylgt þeirri reglu, í von um að fá tillögunum fram komið, að leggja ekki til meiri lækkanir á tollum en nemi tekjuaukum þeim, sem ég hefi bent á í öðru frv., á móti. Tollalækkunin skv. þessu frv., miðað við fjárl. frv. stj., nemur 230 þús. kr. Nú hefir verið borið fram í Ed. frv. um einkasölu á tóbaki og eldspýtum. Tekjur af þeirri einkasölu eru áætlaðar 250 þús. kr. Sú upphæð gerir því betur en vega upp á móti tollalækkuninni. Það getur varla orkað tvímælis, hvort réttara er og hagfeldara, að ríkið taki heildsölugróðann af tóbaki og eldspýtum eða skattleggja nauðsynlegar neyzluvörur um 100%.

Tollur á þessum vörum er mun hærri hér en í nálægurn löndum. Í Danmörku er tollur á sykri 6,5–10 au, kaffi 17 au., kaffibæti 17 au.

Í Noregi er tollur á sykri 20 au., kaffi 30–50 au., kaffibæti 50 au.

Í Svíþjóð er tollur á sykri 7–10 au., kaffi 40–54 au., kaffibæti 20 au.

Í Noregi er að vísu hærri sykurtollur en hér, en alstaðar annarsstaðar er sykur í tveim flokkum eða fleirum, eftir gæðum og dýrleika, hærri og lægri tollflokki eins og sést á þessari skýrslu.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta frv. Ég treysti því, að hv. þm. telji ekki rétt að leggja þrefalt hærri skatt á þessar vörur en hreinar og beinar óhófsvörur, þegar bent er á aðra réttmæta tekjustofna í staðinn.