28.02.1931
Neðri deild: 12. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 723 í C-deild Alþingistíðinda. (1483)

54. mál, ábúðarlög

Magnús Guðmundsson:

Ég verð að láta í ljós undrun mína á því, hve lítið hefir verið gert fyrir þetta mál, jafnnauðsynlegt og það þó er fyrir landbúnaðinn. Mþn., sem skipuð var fyrir nokkrum árum, leysti starf sitt fljótt af hendi og lagði frv. fyrir þingið. En svo hefir málið verið að vefjast hér fyrir mörgum þingum án þess að á því hafi verið tekið af nokkurri alvöru.

Á fyrsta þinginu, sem málið lá fyrir, kom þegar í ljós, að margir þm. voru óánægðir með niðurstöðu mþn. En við því er ekkert að segja, þótt ekki séu allir á nægðir. Það er engin ástæða til þess að leggja málið á hilluna af þeim sökum. Málið á að ræðast og athugast, unz það er komið í það horf, sem þingið getur sætt sig við. Það er ámælisvert, að stj. hefir ekki athugað frv. og breytt því í það horf, sem hún gat fellt sig við og borið fram sem sitt mál. Ég man eftir því, að hv. 1. þm. S.-M. sagði á fyrsta þinginu, sem frv. þetta lá fyrir, að í því feldist ekki breyting, heldur bylting í ábúðarlöggjöfinni. Sá hv. þm. lét alveg ótvírætt í ljós, að hann gæti eigi fellt sig við frv. Fleiri raddir mátti heyra, er gengu í svipaða átt. Þó hefir ekkert verið gert í þá átt að breyta frv. Höfundar frv. flytja það óbreytt þing eftir þing. Ég kasta ekki steini á þá fyrir það. Það er ekki nema eðlilegt, að þeir haldi fast við sína niðurstöðu. En það er stj., sem er ámælisverð fyrir það, að taka ekki málið í sínar hendur. Og áhugi hennar er ekki einu sinni svo mikill, að hún sé viðstödd þegar frv. er rætt. (Rödd: Meiri hl. stj. er veikur af inflúenzu). En hún hefði átt að láta breyta frv. í samræmi við sína eigin skoðun, ef hún hefir nokkurn áhuga fyrir því. Og þessi aðferð, að bera málið fram óbreytt þing eftir þing, leiðir aldrei til annars en þess, að það verður saltað, enda þótt málið sé áríðandi fyrir landbúnaðinn.