28.02.1931
Neðri deild: 12. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 724 í C-deild Alþingistíðinda. (1485)

54. mál, ábúðarlög

Sigurður Eggerz:

Ég ætla einungis að gera stutta aths. Ég vil taka undir það með hv. 1. þm. Skagf., að þetta mál skiptir bændur landsins miklu, og mér þykir kynlega við bregða, að hæstv. landstj., sem alltaf þykist bera hag bændanna fyrir brjósti, skuli ekki a. m. k. gera einhverjar tilraunir til þess að sníða af frv. verstu agnúana, úr því hún treystir sér ekki til þess að taka það óbreytt til flutnings. Mér virðist hæstv. stj., sem alltaf vill láta kalla sig bændastjórn, sýna meira tómlæti um þetta stór mál bændanna heldur en góðu hófi gegnir, og ég vil stórlega átelja þetta tómlæti í slíku máli.

Ég ætla ekki við þessa umr. að fara út í einstök atriði frv. Þó get ég ekki stillt mig um að láta í ljós þá skoðun mína, að mér virðast sum ákvæði frv. höggva allnærri stjskr. landsins. Það skal nú strax tekið fram, að ég er mjög fylgjandi því, að réttur leiguliða sé tryggður betur en nú er, en það má heldur ekki ganga svo langt í þá átt, að réttur landsdrottins sé að fullu fyrir borð borinn. Sum meginákvæði frv. ganga svo nærri rétti landsdrottins, að óhæfilegt verður að teljast með öllu. Sum þessara ákvæða þýða bókstaflega það, að flæma landsdrottin frá eign sinni. Frv. leggur svo ríkar skyldur á landsdrottin, að í mörgum tilfellum yrði honum um megn að uppfylla þær. Lagaákvæði, sem svo eru vaxin, eru efalaust mjög nærgöngul ákvæðum stjskr. um friðhelgi eignarréttarins. Má í þessu sambandi benda á þau ákvæði frv., sem skylda landeiganda til þess að byggja undir vissum kringum stæðum hús á jörðu, sem sveitarstjórn hefir látið skipta samkvæmt 2. gr. frv. Hér er sannarlega verið að gera lítið úr eignarrétti landeiganda. Öðrum aðilum eru heimiluð víðtæk umráð og viðtækur réttur til þess að fara með eign landeiganda eftir eigin geðþótta, þvert á móti vilja og hagsmunum eiganda, og síðan á að leggja óhæfilegar skyldur á landeiganda, ofan á það, að hann er sviptur um ráðum eignar sinnar. Hvar er nú hin löghelgaða friðhelgi eignarréttarins, ef slík ákvæði verða að lögum?

Sem dæmi þess, hversu ófullkomið og ónákvæmt frv. er í einstökum atriðum, má t. d. benda á 12. gr. frv. Þótt þar sé ekki um neitt höfuðatriði að ræða, þá má þó nokkuð af því marka um frágang frv. yfirleitt. Í greininni segir svo: „En skyldur er leiguliði til þess að halda hús um við, þannig, að ekki fyrnist um skör fram fyrir handvömm“. Þetta orðalag er ákaflega óákveðið og teygjanlegt, eins og allir munu sjá. — Annars var það ekki ætlun mín að fara út í einstakar gr. frv. fyrr en við 2. umr., heldur vildi ég einungis sýna höfuðstefnuna í frv., sem ég yfirleitt tel mjög varhugaverða. Þó langar mig til þess að benda hv. þdm. á IX. kafla frv., um kaupskyldu á leigujörðum, því þar er sannarlega knútur riðinn á ósómann um ranglæti þessa frv., en svo kynlega bregður við, að hér er það leiguliði, sem verður undir barðinu. Þar segir svo, í 44. gr.: „Ef landsdrottinn býður leiguliða ábýlisjörð sína til kaups, .... og leiguliði neitar að kaupa, skal hann hafa fyrirgert ábúðarrétti sínum“. Vesalings leiguliðinn! Hvað hefir hann brotið af sér, þó hann vilji ekki eða geti ekki keypt jörðina? Hvers á hann að gjalda? Hvaða sanngirni er nú í öðru eins og þessu, að svipta leiguliða ábúðarréttinum umsvifalaust, fyrir þá sök eina, að hann vill ekki kaupa jörðina á hverjum þeim tíma, sem landeiganda þóknast. Hann hefir ef til vill setið jörðina prýðilega í alla staði, en nú á hann að missa ábúðarréttinn af þessum sökum, fyrirvaralaust að mestu. Hér er opnuð leið fyrir landeiganda til þess að losna við ábúanda á þægilegan hátt, og með því eru ákvæði frv. um lífstíðarábúð gerð einskis virði.

Ég skal svo láta máli mínu lokið að þessu sinni. Þetta átti ekki að vera nema stutt aths. En ég vil að lokum leggja ríka áherzlu á það, að mál, sem skiptir bændastéttina jafnmiklu máli sem þetta frv., verður að fá forsvaranlega af greiðslu, sem og reyndar öll mál, sem Alþingi hefir til meðferðar, og ég vil átelja tómlæti stj. í þessu velferðarmáli bændanna.