28.02.1931
Neðri deild: 12. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 732 í C-deild Alþingistíðinda. (1487)

54. mál, ábúðarlög

Sigurður Eggerz:

Ég gerði örlitla aths. við þetta mál í minni fyrstu ræðu, og það lítur út fyrir, að það hafi orðið til að hleypa hita í hv. flm. Annars fannst mér þessi ræða hans haldin í svo hátíðlegum stíl, að meiri áherzla væri á það lögð en að svara aðfinnslum mínum. Það eru viss atriði, sem maður verður að gæta samræmis við í allri lagagerð, og eitt af því eru grundvallarákvæði stjskr. Þessa hefir nefndin ekki gætt.

Það er íhugunarvert, sem stendur í 2. gr. frv.: „Ef sveitarstjórn tekur við jörð til ráðstöfunar“ — og skiptir henni — „þá skal hún láta gera nauðsynlegustu hús á jörðinni, sem leiðir af skiptingu“, og — „landsdrottinn skal skyldur til að kaupa hús þau, er sveitarstjórn lét gera á jörðinni, ef þau svara til þeirra húsa, sem krafizt er á leigujörðum að mati úttektarmanna“. — Nú er það svo, að enginn veit, hvort landsdrottinn getur full nægt þessari skyldu til að byggja eða kaupa þessi hús. Ýmsir jarðeigendur búa sjálfir í lélegustu kofum, ekki af því, að þeir vildu ekki byggja yfir sig, heldur af því, að þeir geta ekki veitt sér góð húsakynni, nógan hita og ljós, né önnur þægindi. Þeir verða að neita sjálfum sér um þetta allt saman. En er það ekki hörð krafa, að þeir eigi að veita öðrum það, sem þeir ekki geta veitt sjálfum sér?

Það er hart, ef maður hefir í sveita síns andlitis aflað sér jarðarverðs, þá geti hið opinbera þvingað hann til að láta jörðina af hendi. Það er hart, ef maður má ekki ákveða sjálfur, hvort hann vill byggja stórt eða lítið, eða hvort hann treystir sér til að byggja eða ekki. Þegar hv. flm. er kominn á þennan grundvöll, þá er hann kominn út fyrir þann grunn, sem þjóðfélagsbyggingin hvílir á.

Hér er í 11. gr. talað um hús, sem landsdrottni er skylt að reisa og halda við. En svo kemur rúsínan í öllu þessu, að sá landsdrottinn, sem menn skyldu ætla að væri ríkastur, þó að hann skuldi reyndar núna fjörutíu og tvær milljónir, hann er undanskilinn. — „Þó er ríkissjóður undanskilinn þessari húsaskyldu um þær þjóðjarðir allar og kirkjujarðir, sem liggja við auðn eða ætlaðar eru til almennra nota“. — Þegar það er fátæklingur, sem á lítið kot, sem liggur við auðn, þá er hann skyldur til að byggja það upp á eigin kostnað eða selja það fyrir hvað lítið sem er. En ef ríkissjóður á í hlut, er hann undanskilinn þessu á kvæði. Þarna sést, hvernig þeir menn, sem að þessu frv. standa, líta á rétt lítilmagnans. Hér er ráðizt á rétt þeirra fátæku manna, sem með striti sínu eru búnir að eignast smákot og hafa ekki enn efni á að byggja þau upp eins vel og þeir vildu. Hvaða hug sýnir slík árás?

Þá stendur enn í 16. gr.: „Nú hafa jarðnytjar aukizt svo á leigujörð við ræktun, að jarðarhús þau, sem ákveðin eru í 11. gr., eru orðin ónóg peningi þeim, er jörðin framfleytir. Skal þá ábúandi gera landsdrottni viðvart og krefjast þess, að bætt verði við hús á jörðinni. Skal hann láta fylgja vottorð úttektarmanna þar um. Ef landsdrottinn vill ekki bæta við jarðarhús eða stækka, hefir leiguliði heimild til þess að gera hús eins og þörf krefur og úttektarmenn hafa áður vottað. Skal hann tilkynna landsdrottni, hvað húsagerðin hefir kostað, með nægum sönnunargögnum, og er hann þá skyldur til að greiða kostnaðinn. — — Sama gildir, ef endurnýja þarf, hvort heldur bæjar- eða peningshús, og landsdrottinn neitar að gera þau“.

Þetta er allt á eina bókina lært. Landsdrottinn er skyldur að byggja, hvort sem hann getur eða ekki. Og ástæður manna nú eru sannarlega ekki þannig, að vit sé að leggja á menn slíkar byrðar, þó að þeir hafi komizt yfir eitthvert smákot.

Þá skal ég aðeins víkja að 44. gr., þar sem þetta ákvæði er: „Ef landsdrottinn býður leiguliða ábýlisjörð sína til kaups með fasteignamatsverði, að viðbættu virðingarverði umbóta á jörðinni, sem landsdrottinn á frá síðasta fasteignamati, með 5 ára greiðslufresti og bankavöxtum, og jörðin liggur ekki undir skemmdum, svo að sýnilegt sé, að hún muni ganga úr sér, og leiguliði neitar að kaupa, þá skal hann hafa fyrirgert ábúðarrétti sínum“.

Sannleikurinn er sá, að með þessu ákvæði virðist opnuð við leið fyrir jarðeigendur til þess að losa sig við leiguliða, því að hvergi í greininni eru ákvæði um, að ekki megi landsdrottinn nota sér þetta nema hann ætli vissulega að selja og geti selt öðrum en leiguliða, að honum frá gengnum. Nei, það er nóg, ef leiguliði vill ekki kaupa, þá verður hann að fara, og landsdrottinn getur svo vel sett annan án þess að þurfa að selja jörðina. Þetta getur gert leiguliðum með lífstíðar ábúð stórum örðugri aðstöðu en nú. Ég vildi með þessum orðum undirstrika þau mótmæli, sem ég bar fram gegn þessu frv. í fyrri ræðu minni. Það veitti ekki af að vísa því enn til nefndarinnar, til þess að hún athugaði grundvöll þess og grundvallarreglur þjóðskipulagsins og færi ekki að syndga gegn þeim.