28.02.1931
Neðri deild: 12. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 736 í C-deild Alþingistíðinda. (1490)

54. mál, ábúðarlög

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Ég þarf í raun og veru ekki að svara mörgu af því, sem komið hefir fram. Ég heyrði ekki nema niðurlagið á ræðu hv. 1. þm. Rang. og það var svo ósköp meiningar lítið, þegar hann var að gera samanburð á búskap og búmannsviti okkar hv. þm. Dal., að mér stendur það á sama. (SE: Ég er nú kominn af góðum búmönnum). Ég get látið það liggja alveg á milli hluta, hvor betri sé.

Hv. þm. Dal. þyrfti að gera þessu frv. betri skil og samræma það við stjskr. Það er annars illt, að hann skuli ekki hafa verið uppi fyrr og eigi hér eilíft líf og þingsetu, því að ég held, að hann sé ómissandi maður. Reyndar hefði hann þurft á undanförnum þingum að hafa meiri áhrif og íhlutun en hann sýnist hafa haft. Hann hefði þurft að standa miklu betur á verði til að gæta þess, að eignarrétturinn væri ekki skertur um skör fram, eftir því er hann segir nú sjálfur. En hér hygg ég, að hann skjóti hjá markinu. Svo mikið er víst, að sömu ákvæði eða samskonar og þau, sem honum þykja of ströng í frv., hafa lengi verið í lögum landsins; þau hafa sum um langan aldur staðið í búnaðarlöggjöf okkar, þó að hann og margir fleiri háfi kannske aldrei tekið eftir því.

Og krafan um húsaskylduna er ekki meira en hver bóndi verður að uppfylla. Það dugir ekki að miða löggjöfina við þá, sem ekki hafa fjárstyrk til að byggja upp býli sín. Löggjafar landsins hafa séð, að þeim mönnum þarf að hjálpa til að byggja. En sú hjálp nær ekki til þeirra, sem búa á leigujörðum, nema þeir njóti annara manna að, eigenda jarðanna eða sveitarstjórnar. Þó að þeir vildu nota sér þau hlunnindi, sem löggjafarvaldið hefir veitt efnalitlum bændum til að húsa jarðir sínar, geta fasteignasnauðir leiguliðar það ekki nema með hreppsábyrgð. Oftast hafa leiguliðar ekkert fengið, því að eigendur jarðanna hafa ekki viljað láta af gjaldskvöð á jarðir sínar. Þó að eigendur sjálfir búi margir í lélegum húsakynnum, má löggjafarvaldið ekki haga löggjöf sinni eftir því. Það er eins og önnur neyð, sem ráða þarf bráðar bætur á, og ganga þarf svo frá ábúðarlögum, að séð sé um, eftir því sem hægt er, að húsakynni verði þannig, að heilbrigði manna verði ekki hætta búin.

Hv. þm. Dal. var að tala um það, að með þessu frv. væri kippt burtu grund vellinum undan núv. þjóðskipulagi. Mun hann hafa átt við það, að með frv. væri eignarréttur á jörðum að engu gerður. Þetta er auðvitað hin mesta fjarstæða, sem ekki er eyðandi orðum um. Ég vil þó benda hv. þm. Dal. á það, að samkv. hans eigin rökstuðningi mætti eins segja, að eignarrétturinn sé upphafinn, eins og nú er, þar sem ábúðarrétturinn er svo, að jarðeigendum er ekki unnt að taka jörð úr ábúð, ef til lífstíðar er byggt, eða þó máske ennfremur, ef gleymzt hefir í tæka tíð að gefa byggingarbréf fyrir jörðinni, að þá getur eigandi jarðarinnar alls ekki tekið hana úr ábúð, nema hann geti sannað, að jörðin hafi verið byggð til til tekins tíma.

Hvað það snertir, að ríkissjóður er samkv. 11. gr. frv. undanskilinn húsaskyldunni, get ég gjarnan upplýst það, að þetta ákvæði er ekki sett í frv. af okkur nm., heldur af stj., sem tók frv. til athugunar í fyrra. Hinsvegar vil ég benda á það, að þetta ákvæði nær aðeins til þeirra jarða ríkissjóðs, sem liggja við auðn eða ætlaðar eru til almennra af nota. Býst ég ekki við, að hv. þm. Dal. geti verið svo barnalegur, að hann haldi, að menn sækist eftir að búa á býlum, sem liggja við auðn. — Húsaskylda á slíkum jörðum hefir því nauðalitla þýðingu.

Það lítur náttúrlega ákaflega sennilega út, að þeir menn séu sérstaklega fátækir, sem eiga jarðir og leigja þær út. Sú hefir löngum verið venjan, að þeir væru fátækastir, sem jarðir eiga ! Nei, hv. þm. Dal. þýðir ekki að slá fram slíkum staðhæfingum sem rökum. Ég veit þess t. d. dæmi frá Norðurlandi, að tveir menn eigi einir svo að segja heila sveit. Skyldi hv. þm. Dal. álíta, að þeir séu fátækir? Ég get varla ímyndað mér það. Og það er víst, að þessir menn hafa lag á því að leigja jarðir sínar þannig út, að ábúendum þeirra er varla vært.

Hv. þm. Dal. drap á einstakar gr., en ég ætla þó ekki að fara langt út í það, sem hann sagði um þær, að svo komnu máli. Einkum voru það kaupskylduá kvæði 44. gr., sem hv. þm. Dal. hneykslaðist á. Mun ég ekki berjast á móti því, að leiguliðum séu sýndar meiri ívilnanir en þar er gert. Hinsvegar finnst mér hálfkátlegt, þegar annarsvegar er verið að halda því fram, að gengið sé of nærri jarðeigendum, en hinsvegar, að réttur leiguliða sé fyrir borð borinn. Annars vildi ég mega vænta þess, að hv. þm. vildu gera umbætur á frv. og bæta úr þeim göllum, sem þeim þykir á því vera. Er það meir sæmandi þm. en að rísa upp með andmælum gegn frv., án þess að koma fram með nokkrar till. til bóta á því.

Hv. 1. þm. Skagf. var mjög sanngjarn í sinni ræðu. Þótti honum sem við nm. værum ekki ámælisverðir, þótt við hefð um flutt frv. óbreytt, enda verður okkur satt að segja varla fundið það til sakar, á meðan gildari rök eru ekki færð fyrir ágöllum frv. en fram hafa komið til þessa.

Á síðasta þingi fór þetta mál til landbn. um miðjan febrúar, ef ég man rétt. N. fór í gegnum frv. allrækilega, enda hafði hún langan tíma til að athuga það, og hafði hugsað sér að bera fram ýmsar brtt. við frv. Af því varð þó ekki, enda kom málið ekki framar fyrir þingið. Þar 47 sem hinsvegar n. er nú kunnugt orðið þetta mál, vegna vinnu sinnar við það í fyrra, og hún er nær eins mönnum skipuð, má gera ráð fyrir, að hún geti verið hraðvirk að þessu sinni og afgr. málið á skömmum tíma. Vænti ég þess því, að hv. þdm. geti fallizt á að vísa málinu til nefndar.

Læt ég svo lokið máli mínu að þessu sinni, og býst ég ekki við því, að ég muni taka aftur til máls við þessa umr.