19.03.1931
Neðri deild: 28. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í C-deild Alþingistíðinda. (1520)

58. mál, útsvör

Frsm. (Lárus Helgason):

Frv. þetta fjallar um gjalddaga útsvara til sveita. Hafði allshn. borizt annað frv. um gjalddaga útsvara hér í Reykjavík, og tók n. því það ráð, að færa frv. saman í eitt, þannig að efni þeirra kemur fram óbreytt. Hreppsnefndir geta breytt gjalddögum útsvara, að fengnu samþykki sýslunefnda, og bæjarstj. hér í Reykjavík með leyfi atvmrh. Jafnframt flytur n. þá brtt. í samræmi við frv. á þskj. 118, að dráttarvextir af vangoldnum útsvörum skuli hækka úr 1/2% upp í 1%. Er sú ástæða til þess, að ef dráttarvextir eru teknir á annað borð, er sanngjarnt að hafa þá 1%, og er það sízt hærra en venjulegir bankavextir. Er og engin ástæða til að vera að ýta undir vanskil, eins og það gerir, ef dráttarvextir eru lægri en venjulegir bankavextir.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri að sinni, en legg til, að frv. verði samþ. með þeim brtt., sem n. hefir gert við það.