13.04.1931
Neðri deild: 45. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1112 í C-deild Alþingistíðinda. (1531)

194. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Ólafur Thors:

Það er mjög leiðinlegt, að maður skuli þurfa að tala við hæstv. forsrh. eins og við barn. Það hlýtur að vera hæstv. ráðh. skiljanlegt, að það styrkir aðstöðu jafnaðarmanna að óhlýðnast hæstv. stj. öðruhvoru, til þess að sýna, að þeir séu henni ekki of háðir.

Hæstv. ráðh. má og vita það, að honum muni aldrei takast að koma því inn í vitund manna, að á bak við samtök okkar og jafnaðarmanna um stjskrbreyt. sé nokkurt réttindaafsal af okkar hálfu. Okkur getur ekki komið til hugar að rýra kjörvald sveitanna, enda byggir okkar flokkur að miklu leyti á því, og það er öllum vitanlegt, að Sjálfstæðisflokkurinn á sízt minna fylgi í sveitunum heldur en Framsókn. Aðalatriðið fyrir okkur er það, að hver einstakur landsmaður geti notið réttar síns í sem ríkustum mæli. Ég öfunda hæstv. ráðh. ekkert af því að ætla að berjast á þeim grundvelli, að réttur landsmanna skuli vera ójafn í þessum efnum. Það er þessi réttlætiskrafa, sem við sjálfstæðismenn leggjum áherzlu á. Vill hæstv. ráðh. halda því fram, að það sé nokkurt réttlæti, að Framsókn skuli hafa 19 þm., þrátt fyrir það, að við síðasta landskjör fékk hún ekki nema um 9 þús. atkv., á móti um 21 þús., sem andstæðingar stj. fengu?