13.04.1931
Neðri deild: 45. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1113 í C-deild Alþingistíðinda. (1534)

194. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Hv. 2. þm. G.-K. rataðist satt á munn, er hann sagði, að erfitt væri að deila við mig með rökum. Þetta er alveg rétt, hv. þm. brestur algerlega rök á móti mér.

Hv. þm. sagði, að ekkert lægi fyrir um stuðning jafnaðarmanna við sjálfstæðismenn. Málið hefir samt komið fyrir fulltrúaráð Alþýðuflokksins, sem telur 10 menn. 5 þeirra greiddu atkv. með því að styðja Sjálfstæðisflokkinn, en 5 voru á móti því. Fyrir þessu liggja góðar heimildir.

Síðasta atriðið í ræðu hv. þm. var mjög eftirtektarvert. Hv. þm. lýsir því yfir, að Jafnaðarmannaflokkurinn og hann ásamt allri miðstjórn Sjálfstæðisflokksins hafi borið fram vantraust á stj. En hann segist ekki hafa gert sér ljóst, hvað við taki. (ÓTh: Það getur ekki tekið verra við!). Ég vil benda honum á, að hann hefir ekkert leyfi til þess að stofna til stjórnarskipta sem miðstjórnarmaður í næststærsta þingflokknum, nema honum sé ljóst, hvað tekur við og eigi vísa stjórn í staðinn fyrir þá, sem frá fer. (ÓTh: Í staðinn fyrir óstjórnina.!). Það, að bera fram vantraust á stj. af hálfu næststæsta þingflokksins, þýðir, að hann sé siðferðislega skyldugur til að koma með nýja stjórn.